Leggjast gegn líknardrápi bróður

Málið verður tekið fyrir í Genf í Sviss.
Málið verður tekið fyrir í Genf í Sviss. Ljósmynd/Wikipedia

Tveir bræður hafa lagt fram kæru þar sem þeir leggjast gegn því að svissnesku samtökin Exit, sem aðstoða við líknardráp, aðstoði eldri bróður þeirra við að deyja. Málið hefur verið tekið fyrir dómstól í Genf. Bróðirinn, sem er 82 ára, óskaði eftir því 18. október síðastliðinn að fá aðstoð við að deyja. Þetta tilkynnti hann systkinum sínum, sem eru fimm talsins, en tveir bræður hans lögðu fram kæru.

Beðni mannsins um eigið líknardráp verður að fara fyrst fyrir dómstóla. Áætlað er að það taki um þrjá mánuði.

Bræðurnir sem lögðu fram kæruna halda því fram að bróðir þeirra þjáist af skammtímaþunglyndi og taki því ekki þessa ákvörðun af frjálsum vilja. Bróðirinn sem vill deyja hefur verið meðlimur í samtökunum Exit í yfir tvo áratugi.

Talsmaður samtakanna segir manninn þjást af „margþættri aldurstengdri fötlun“. Í bréfi sem bróðirinn hefur ritað kemur meðal annars fram að andlegt og líkamlegt ástand sitt sé „óbærilegt“.

Samkvæmt svissneskum lögum um líknardráp geta læknar úthlutað sjúklingum banvænum skammti af lyfjum. Læknirinn þarf samt að uppfylla ákveðin skilyrði og gera þetta án þess að fá þóknun fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert