Tveir jarðskjálftar á Ítalíu

Frá þorpinu Amatrice sem fór illa út úr jarðskjálftanum í …
Frá þorpinu Amatrice sem fór illa út úr jarðskjálftanum í ágúst. Í kvöld urðu tveir jarðskjálftar í um 60 km fjarlægð frá Amatrice. Byggingar skulfu en ekki er vitað um slys á fólki. AFP

Tveir jarðskjálftar urðu á Ítalíu í kvöld, nálægt Visso í Macerata-héraði. Skjálftarnir mældust töluvert stórir, sá fyrri 5,1 og sá síðari 6,1. Byggingar skulfu og íbúar streymdu út á götur í kjölfar skjálftanna.

Tveir eru slasaðir en ekki er vitað um frekara manntjón.

Tveir mánuðir eru liðnir frá því að öflugur jarðskjálfti reið yfir Ítalíu sem var með þeim mann­skæðustu sem hafa gengið yfir landið. Fjöldi manns lét lífið, auk þess sem gríðarlegt eigna­tjón varð á svæðunum sem verst urðu úti.

Skjálftarnir í kvöld áttu upptök sín um 60 kílómetra frá Amatrice, þar sem skjálftinn í ágúst átti upptök sín. Skjálftarnir fundust víða um miðja Ítalíu, þar með talið höfuðborginni, Róm, þar sem byggingar og rúður skulfu.

Yfirvöld meta nú ástandið eftir skjálftana tvo. Skólar á svæðinu verða til að mynda lokaðir á morgun.

Frétt BBC. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert