Fleiri drepnir í Brasilíu en Sýrlandi

Liðsmenn sérsveitar í Rio De Janeiro að störfum.
Liðsmenn sérsveitar í Rio De Janeiro að störfum. AFP

Fleira fólk hefur verið drepið í Brasilíu síðustu fjögur árin en á meðan á stríðinu í Sýrlandi hefur staðið undanfarin fimm ár.

Glæpatíðni hefur aukist í Brasilíu síðustu ár og hjálpar þar ekki mikil efnahagslægð og niðurskurður í útgjöldum til lögreglunnar víðsvegar um landið.

Samkvæmt hóp sem fylgist með almannaöryggi í Brasilíu voru tæplega 280 þúsund manns drepin í landinu á árunum 2011 til 2015.

Mannréttindavaktin í Sýrlandi segir að 256.124 manneskjur hafi verið drepnar á sama tíma í borgarastyrjöldinni í landinu.

Á síðasta ári voru rúmlega 58 þúsund manns drepin í Brasilíu. Talan nemur 28,6 af hverjum 100 þúsund manns, sem er mun hærra en hlutfallið 10 af hverjum 100 þúsund, sem Sameinuðu þjóðirnar miða við í tengslum við langvinnt ofbeldi sem erfitt er að stöðva.

Alls drápu lögreglumenn 3.345 manns í Brasilíu í fyrra en að sama skapi voru 393 lögreglumenn drepnir við skyldustörf.

Brasilískir lögreglumenn að störfum í borginni Rio de Janeiro.
Brasilískir lögreglumenn að störfum í borginni Rio de Janeiro. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert