Ráðgjafi Trump dreifði lygafréttunum

Michael Flynn, verðandi þjóðaröryggisráðgjafi Trump, með syni sínum Michael Flynn …
Michael Flynn, verðandi þjóðaröryggisráðgjafi Trump, með syni sínum Michael Flynn yngri. AFP

Verðandi þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump og sonur hans hafa dreift lygafréttum um pítsustað þar sem vopnaður maður hleypti af skotum í gærkvöldi. Fyrir kosningar dreifði ráðgjafinn lygum um að Hillary Clinton tengdist barnaníðshring og nú vísar sonur hans á samsæriskenningar um byssumanninn.

Pitsustaðurinn Comet Ping Pong í Washington-borg hefur verið fórnarlamb rætinna lyga á netinu sem hófust í kosningabaráttunni vestanhafs og var dreift grimmt af stuðningsmönnum Trump. Hafa eigendur og starfsmenn staðarins jafnvel fengið líflátshótanir vegna þeirra.

Frétt Mbl.is: Skotárás á „pizzagate“-staðnum

Í samsæriskenningum vafasamra vefsíðna og samfélagsmiðlasíðna þeirra á staðurinn að vera skálkaskjól barnaníðshrings Clinton og fleiri demókrata. Það á að vera á meðal þess sem kom fram í tölvupóstum John Podesta, kosningastjóra Clinton, sem var stolið og lekið í kosningabarátunni. Notuðu þeir sem dreifðu samsæriskenningunni myllumerkið #pizzagate á Twitter.

Tæplega þrítugur karlmaður var handtekinn eftir að hann hleypti af skotum á pítsustaðnum í gærkvöldi en hann sagðist vera að „rannsaka“ sjálfur sannleiksgildi þessara fullyrðinga. Engan sakaði.

Eftir uppákomuna í gær tísti Michael Flynn yngri, sonur fyrrverandi undirhershöfðingjans Michael Flynn sem Trump hefur skipað sem þjóðaröryggisráðgjafa sinn: „Þangað til það hefur verið sannað að #pizzagate sé rangt þá verður það áfram frétt. Vinstrimenn virðast gleyma #Podestatölvupóstunum og mörgum „tilviljunum“ sem tengjast þeim,“ skrifaði Flynn yngri sem hefur verið ráðgjafi föður síns.

Vísaði sonurinn á Twitter-síðu manns sem lýsir sér sem verkefnastjóra sérverkefna hjá samtökum sem nefnast Citizens4Trump. Sá heldur því fram að uppákoman með byssumanninn á Comet Ping Pong hafi í raun verið leynileg aðgerð. Byssumaðurinn hafi verið leikari og tilgangurinn með uppákomunni hafi verið að rýra trúverðugleika síðna sem dreifðu samsæriskenningunni um staðinn, að því er kemur fram í frétt Politico.

Frétt Mbl.is: Pítsustaður fórnarlamb lygafrétta

Netverjar hafa jafnframt bent á að Flynn sjálfur hafi dreift samsæriskenningum sem tengjast pítsustaðnum rétt fyrir kosningar. Þannig dreifði hann lygafrétt um að lögreglan í New York hefði fundið ný sönnunargögn sem bendluðu Clinton-hjónin við fjölda glæpa, þar á meðal barnaníð. Þær kenningar voru rakalausar með öllu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert