10 fundnir á lífi í snjóflóðinu

Björgunaraðgerðir við Rigopiano hótelið í hlíðum Gran Sasso fjallsins. Björgunarsveitir …
Björgunaraðgerðir við Rigopiano hótelið í hlíðum Gran Sasso fjallsins. Björgunarsveitir hafa fundið 10 manns á lífi í dag og talið er að 13 séu enn grafin í snjó í rústum hótelsins. AFP

Þrjú börn eru í hópi þeirra tíu sem fundist hafa á lífi í dag, eftir að snjóflóð féll á hótel í Abruzzo-héraði á Ítalíu á miðvikudag.

Fréttastofa AFP hefur eftir björgunarsveitarmönnum að björgunarsveitarmenn hafi í dag fundið móður og son hennar og að tekist hafi að staðsetja átta manns til viðbótar á lífi undir snjónum og rústum hótelsins.

Frétt mbl.is: Tvær stúlkur fundust á lífi

Mæðgin voru flutt með þyrlu á sjúkrahús eftir að björgunarsveitarmenn náðu þeim upp, en björgunarsveitir hafa ekki enn náð að grafa upp hina átta sem grafnir eru undir snjónum og rústum hótelsins.

Misvísandi upplýsingar hafa verið um hve margir hafi fundist á lífi í rústum hótelsins, en talið er að að minnsta kosti 25 manns hafi verið á hótelinu þegar snjóflóðið féll.

AFP hefur eftir Luca Cari, talsmanni slökkviliðsins á staðnum, að tíu manns hafi fundist á lífi í rústunum í dag. Tveir til viðbótar fundust á lífi í gær og þann dag fundu björgunarsveitir einnig lík tveggja. Talið er því að 13 manns séu enn grafnir í snjónum.

Rigopiano-hót­elið er um 90 km frá upp­tök­um jarðskjálft­anna sem voru við Mont­ereale á miðvikudag, lítið þorp suður af Am­at­rice þar sem 300 manns hið minnsta fórust í öflugum jarðskjálfta í ágúst á síðasta ári. Hótelið stóð í hlíðum Gran Sasso-fjallsins sem er hæsti tindur miðhluta Ítalíu.

Björgunarsveitir ná hér út konu sem var grafin lifandi undir …
Björgunarsveitir ná hér út konu sem var grafin lifandi undir tveggja metra snjóalagi í hótelrústunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert