Flúði ólétt úr brennandi þorpi

Naykena ásamt öðru barna sinna á heilsugæslu sem UNICEF rekur …
Naykena ásamt öðru barna sinna á heilsugæslu sem UNICEF rekur í Juba, höfuðborg Suður-Súdans. Ljósmynd/UNICEF

Á heilsugæslustöð í Juba, höfuðborg Suður-Súdans, eru saman komnar mæður með vannærð börn sín. Þær hafa þurft að flýja heimkynni sín undan ofbeldi og stríðsátökum. Ástand barnanna er misjafnt. Sum eru mjög alvarlega vannærð og í lífshættu, önnur eru á batavegi og vonin skín úr augum mæðra þeirra. 

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, styður rekstur heilsugæslunnar í þessu stríðshrjáða Afríkuríki þar sem blóðug borgarastyrjöld hefur geisað í meira en þrjú ár og kostað hundruð manna lífið. Ofan á stríðsástand hefur nú bæst hungursneyð af mannavöldum. Landbúnaður landsins er í molum, efnahagurinn í rúst. Matur er víða af skornum skammti og á sumum svæðum nánast enginn. 

Naykena er 25 ára. Hún á tvíbura sem eru rúmlega tveggja vikna gamlir, strák og stelpu. Fjölskyldan bjó í Bor. Fyrir stríðið gekk lífið sinn vanagang. Naykena er nýgift og var hamingjusöm. Hún leit björtum augum til framtíðar. Eiginmaðurinn var í vinnu og sá dagur nálgaðist að tvíburarnir áttu að koma í heiminn. Þá breyttist allt.

Þorpið var alelda

Átök brutust út. Eina nóttina vaknaði Naykena við skothríð. Þegar hún fór að kanna hvað væri á seyði sá hún að eldur logaði í húsunum í kring. Þorpið hennar var að brenna. 

Hún var ólétt og ákvað að leggja á flótta. Foreldrar hennar voru drepnir þessa nótt. Hún missti einnig samband við eiginmanninn og hefur ekki heyrt í honum síðan. Hann hafði flúið út í skóg. Naykena veit að hann er enn á lífi en hefur gengið til liðs við hermennina.

Þekkti engan

Naykena komst á heilsugæslu í flóttamannabúðum í Bor og þar fæddi hún tvíburana sína. Hún þekkti engan og ákvað stuttu síðar að fara til höfuðborgarinnar og reyna að finna bróður sinn. Í asanum gleymdi hún skömmtunarkortinu sínu og átti í kjölfarið erfitt með að fá mat. Tvíburarnir þrifust ekki nægilega vel og hún leitaði á heilsugæslu í Juba. Þar hafa börnin hennar nú fengið meðferð vegna vannæringar. 

Nyakena óskar þess helst af öllu að börnin hennar þurfi ekki að kynnast hatri og muni læra að elska og virða aðra. Hún segist þrá að íbúar Suður-Súdans leggi ágreiningsefni sín til hliðar og hjálpist að við að koma á friði, svo framtíð barna landsins verði bjartari.

Um 200 þúsund flóttamenn búa nú á verndarsvæðum hjálparsamtaka í Suður-Súdan. Nokkur þúsund börn hafa á heilsugæslustöðvunum þar fengið meðferð vegna vannæringar. 

100.000 manns eiga á hættu að deyja úr hungri. Ein millj­ón manna til viðbót­ar er að auki á barmi hung­urs­neyðar. UNICEF, Barna­hjálp Sam­einuðu þjóðanna, er með mik­inn viðbúnað í land­inu, enda mörg börn í lífs­hættu. Hung­urs­neyðin er sú fyrsta sem lýst er yfir í heim­in­um í tæp­lega sex ár.

Söfnun UNICEF á Íslandi vegna hungursneyðarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert