Lögregla hóf skothríð á bíl í Barcelona

Bíllinn var dreginn burt.
Bíllinn var dreginn burt. AFP

Spænska lögreglan er með einn mann í varðhaldi eftir að hún hleypti af skotum á pallbíl sem keyrði á fullri ferð á móti umferð í Barcelona fyrr í dag. Á palli bílsins var fullt af gashylkjum.

„Bílstjórinn sem stal bifreiðinni í Barcelona hefur átt við geðræn vandamál að stríða. Þetta var ekki hryðjuverkaárás,“ sagði Juan ignacio Zoido, innanríkisráðherra Spánar, á Twitter.

Lögreglan staðfesti að hún hefði handsamað bílstjórann en hann er sænskur. Talsmaður lögreglunnar staðfesti við AFP-fréttastofuna að skotum hefði verið hleypt af.

Sjónarvottur sagði að bílstjórinn hefði hunsað fólk sem öskraði á hann að stöðva þar sem hann ók á móti umferð. „Hann hló þegar fólk öskraði á hann og sýndi þeim miðfingurinn,“ sagði sjónarvottur við AFP.

Lögregla hefur ekki greint frá því hvort einhverjir hafi slasast en henni tókst að stöðva bílinn nálægt strandsvæði Barcelona.

Lögregla skaut í framrúðu bílsins eins og sést.
Lögregla skaut í framrúðu bílsins eins og sést. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert