Sakaður um að réttlæta barnagirnd

Fyrirhuguðum fyrirlestri Yi­annopou­los í Berkeley í byrjun febrúar var harðlega …
Fyrirhuguðum fyrirlestri Yi­annopou­los í Berkeley í byrjun febrúar var harðlega mótmælt og skólayfirvöld tilkynntu að hann fengi ekki að tala þar. AFP

Milo Yiannopoulos, rit­stjóri hægriöfga-frétta­veit­unn­ar Breit­bart, mun ekki verða einn fyrirlesara á ráðstefnu íhaldsmanna í Bandaríkjunum og þá hefur bókaútgáfa hætt við fyrirhugaða bók hans. Myndskeið birtist nýlega þar sem Yiannopoulos virðist leggja blessun sína yfir barnagirnd.

Í myndskeiðinu sést Yiannopoulos ræða kosti sambands á milli fullorðins karlmanns og stráks allt niður í 13 ára. Hann neitar því sjálfur að hafa lagt blessun sína yfir barnagirnd og segir myndskeiðið hafa verið klippt til þannig að það kæmi illa út fyrir hann.

Félag íhaldsmanna sagði að afsökunarbeiðni væri ekki nóg og því fær Yiannopoulos, sem er ákafur stuðningsmaður Donald Trump, ekki að halda ræðu á sama stað og Trump á föstudaginn.

Yiannopoulos virðist halda því fram í áðurnefndu myndskeiði að það sé ekki hægt að tala um barnagirnd ef yngri aðilinn hefur náð kynþroskaaldri. 

Hins vegar talar hann á öðrum stað í myndskeiðinu um að lögin í Bandaríkjunum, sem segja til um að fólk þurfi að hafa náð 16 eða 18 ára aldri til að stunda kynlíf, séu sanngjörn og réttlát.

„Mér finnst slíkir glæpir ógeðslegir og fólkið sem brýtur svona af sér er ógeðslegt,“ skrifaði Yiannopoulos á Facebook-síðu sína.

Ennfremur sagðist hann sjá eftir því að hafa notað orðið „strákar“ í staðinn fyrir ungir menn þegar hann var að ræða sambönd samkynhneigðra þar sem munur væri á aldri aðila í sambandinu.

Hann hélt því einnig fram að hann væri fórnarlamb barnamisnotkunar.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert