Manntal fyrir flutning á eyjuna

Mujibullah flúði undan ofbeldi í heimalandi sínu, Búrma. Hann hlaut …
Mujibullah flúði undan ofbeldi í heimalandi sínu, Búrma. Hann hlaut m.a. skurð á hendi eins og sjá má. AFP

Yfirvöld í Bangladess framkvæma nú manntal meðal flóttafólks af Rohingja-þjóðinni sem flúið hafa til landsins undan ofsóknum í Búrma. Manntalið er undanfari umdeildrar aðgerðar stjórnvalda sem ætla að flytja Rohingjana út á eyðieyju. 

Fulltrúar stjórnvalda fóru um flóttamannabúðir í Cox Bazar og töldu flóttafólkið. „Til að byrja með munum við gera lista yfir fjölskyldur frá Búrma sem búa í búðunum og við þær, síðan munum við telja hvern og einn,“ segir Wahidur Rahman, embættismaður hjá Hagstofu Bangladess.

Hann staðfestir við AFP-fréttastofuna að ríkisstjórnin ætli sér að flytja Rohingjana út á Thengar Char-eyju í Bengalflóa. Hann segir þann flutning helstu ástæðu manntalsins nú.

Ali Hossain, borgarfulltrúi í Cox Bazar segir að manntalið muni taka að minnsta kosti þrjá mánuði og muni nýtast ríkisstjórninni við að flytja flóttafólkið.

Yfirvöld í Bangladess telja að um 400 þúsund manns af Rohingja-þjóðinni búi í landinu, þar af um 73 þúsund sem flúið hafa þangað síðan í október er stjórnvöld í Búrma hófu herferð gegn þeim.

Yfirvöld ætla að halda til streitu áformum sínum um að flytja fólk á eyjuna þrátt fyrir að hafa verið vöruð við því að mikil hætta sé á flóðum sem verði stundum til þess að öll eyjan fer á kaf. 

Mannréttindasamtök hafa harðlega gagnrýnt áformin.

Hún varð fyrst opinber árið 2015 og var þá þegar umdeild. Stjórnvöld í Bangladess segja þetta bráðabirgðaúrræði sem muni auðvelda aðgang flóttafólksins af mannúðaraðstoð.

Eyja í árósunum

Stjórnvöld hafa þegar fyrirskipað byggingu bryggju og þyrlupallar á eyjunni sem er í ósum Meghna-árinnar. 

Flestir flóttamennirnir búa við ömurlegar aðstæður í Cox Bazar sem er einn helsti ferðamannastaðurinn í Bangladess. 

Fulltrúi Sameinuðu þjóðanna heimsótti búðirnar í síðustu viku og segir í skýrslu sinni að flóttafólkið saki stjórnvöld í heimalandinu, Búrma, um grimmdarverk, m.a. morð, íkveikjur og nauðganir.

Rohingjar hafa sætt ofsóknum lengi. Þeir eru múslímar og af yfirvöldum í Búrma taldir landlausir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert