Segja fjölda morðanna vera vanmetinn

Noor Sahara, er sex ára gömul. Hún er Rohingya-múslími og …
Noor Sahara, er sex ára gömul. Hún er Rohingya-múslími og flúði yfir landamærin ti Bangladess. AFP

Meira en 1.000 Rohingya-múslimar kunna að hafa verið drepnir í aðgerðum búrmíska hersins, að því er Reuters-fréttastofan hefur eftir tveimur hátt settum starfsmönnum Sameinuðu þjóðanna. Starfsmennirnir, sem starfa hjá sitthvorri stofnuninni, hafa báðir unnið í Bangladess með Rohingya-múslimum sem flúið hafa ofbeldi búrmíska hersins.

Þeir segja margt benda til þess að mun fleiri hafi verið drepnir en áður var talið og að umheimurinn hafi ekki að fullu áttað sig á alvarleika ástandsins í Rakine héraðinu í Búrma.

„Til þessa hefur verið talið að hundruð hafi verið drepnir, en þetta er líklega vanmat. Við gætum verið að tala um þúsundir,“ sagði annar heimildamanna Reuters sem ekki vildi láta nafns síns getið.

Báðir sögðu heimildamennirnir að þær sannanir sem stofnanir þeirra hefðu aflað á sl. fjórum mánuðum bendi til þess að yfir þúsund manns hafi verið drepnir.

Zaw Htay, talsmaður forsetaskrifstofu Búrma, sagði að samkvæmt síðustu tölum frá hernum hafi innan við 100 manns verið drepnir í  tilraun til að bæla niður uppreisn hryðjuverkamanna í Rakine héraði, sem hafi gert árás á landamærastöð lögreglu í október.

Rohingya-múslimar eru minni­hluta­hóp­ur í Búrma og eru þessar 1,1 milljónir manna rétt­lausar með öllu. Í skýrslu sem Amnesty International sendi frá sér í lok síðasta árs, var her­inn í Búrma sakaður um að drepa al­menna borg­ara, nauðgan­ir, pynt­ing­ar og stuld.

Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) sendi frá sér skýrslu í síðustu viku, þar sem lýst er fjöldamorðum og hópnauðgunum hermanna í Rakine-héraði á undanförnum mánuðum. Segir í skýrslunni að aðgerðir hersins megi væntanlega flokka sem glæpi gegn mannkyninu.

Ríkisstjórn Búrma, undir stjórn Aung San Suu Kyi, greindi frá því í síðustu viku að ásakanirnar yrðu rannsakaðar, en stjórnin hefur til þessa hafnað flestum ásökunum um morð, nauðganir og íkveikjur.

Sífellt fleiri sannanir hlaðast hins vegar upp gegn hernum, sem Suu Kyi hefur enga stjórn yfir og setur það hana í erfiða stöðu, en stjórnarskrá Búrma var saminn af herforingjastjórninni sem fór áður með völdin í landinu.

Suu Kyi hefur verið gagnrýnd af ráðamönnum og mannréttindasamtökum á Vesturlöndum fyrir að tjá sig ekki um málið og hefur það dregið töluvert úr þeirri góðvild sem hún vann sér inn er hún barðist fyrir lýðræðisbreytingum í Búrma á tímum herforingjastjórnarinnar.

Ögri hún herforingjunum er það hins vegar talið geta bundið enda á þá lýðræðisþróun sem hefur átt sér stað í Búrma undanfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert