Sakar Obama um baktjaldamakk

Donald Trump og Barack Obama.
Donald Trump og Barack Obama. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sakað Barack Obama og „fólkið hans“ um að standa á bakvið mótmæli gegn sér. Þá segir hann sama fólk mögulega hafa átt aðild að leka upplýsinga úr Hvíta húsinu.

Í viðtali í þættinum Fox and Friends, sem sýndur er á Fox News, var Trump spurður að því hvort hann teldi Obama hafa átt þátt í því að skipuleggja mótmæli gegn sé og ef svo væri,  hvort það væri ekki brot gegn þeirri óformlegu sátt að forsetar vinna ekki gegn hvor öðrum.

„Nei, ég held að hann standi á bakvið það. Ég held líka að þetta sé bara pólitík. Það er bara þannig sem það er,“ svaraði Trump en brot úr viðtalinu var birt í gærkvöldi.

„Þú veist aldrei hvað nákvæmlega er að gerast bakvið tjöldin... Ég held að Obama forseti sé á bakvið þetta því hans fólk stendur sannarlega á bakvið þetta,“ bætti Trump við.

Repúblikanar og miðlar hliðhollir sjónarmiðum þeirra hafa sakað forsetann fyrirverandi um að stjórna mótmælunum gegn Trump í gegnum samtök sem kallast Organizing for Action (OFA) en þau urðu til í kosningabaráttu Obama. Samtökunum er stjórnað af Jim Messina, sem var starfsmannastjóri Obama fyrra kjörtímabilið í Hvíta húsinu og kosningastjóri hans fyrir kosningarnar 2012.

Í viðtalinu við Fox sakaði Trump Obama og bandamenn hans einnig um að standa á bakvið leka úr Hvíta húsinu. „Sumir lekanna komu mögulega frá þeim hópi,“ sagði hann.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert