Trump fundar með forsætisráðherra Ítalíu

Paolo Gentiloni, forsætisráðherra Ítalíu.
Paolo Gentiloni, forsætisráðherra Ítalíu. /AFP

Forsætisráðherra Ítalíu, Paolo Gentiloni, er sagður munu funda með Donald Trump Bandaríkjaforseta 20. apríl og mun fundurinn fara fram í Washington. Þetta hefur fréttastofa Rauters eftir heimildamönnum sínum í utanríkisþjónustunni.

Ítalía gegnir nú forsæti á samstarfsvettvangi G7-ríkjanna svokölluðu, hópi sjö sterkra iðnvæddra ríkja, en ríkin skiptast á að gegna forsæti. Því munu Ítalir vera gestgjafar næstu ráðstefnu ríkjanna sem fram fer á Sikiley í maí og þykir líklegt að þá verði fyrsta ferð Trumps til Evrópu eftir að hann tók við embætti forseta.

Trump hefur þegar fundað með leiðtogum nokkurra valdamikilla ríkja síðan hann var svarinn í embætti 20. janúar en þeirra á meðal eru Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands. Allir fundanna hingað til hafa farið fram í Washington.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert