Stefnir í lagadeilur vegna tilskipunar Trump

Ríkisstjórar Kaliforníu og New York ætla að berjast gegn þeirri …
Ríkisstjórar Kaliforníu og New York ætla að berjast gegn þeirri ákvörðun Donald Trumps Bandaríkjaforseta að draga úr aðgerðum Bandaríkjamanna í loftslagsmálum. AFP

Andstæðingar þeirrar ákvörðunar Donald Trumps Bandaríkjaforseta að draga úr aðgerðum Bandaríkjamanna í loftslagsmálum, segjast ætla að skipuleggja eigin herferðir og leita lagalegra leiða til að streitast á móti ákvörðuninni. Trump undirritaði í gær forsetatilskipun sem afnemur sex tilskipanir forvera hans, Baracks Obama, sem miðuðu að því að draga úr kolefnislosun. Trump ætlar með þessu að skapa ný störf, m.a. í kolaiðnaði. 

Yfirvöld í Kaliforníu og New York hafa nú sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu um að þau muni halda áfram baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þá segir fréttavefur BBC umhverfisverndarsamtök hafa ráðið til sín her lögfræðinga til að vefengja þá ákvörðun forsetans að auka framleiðslu á jarðefnaeldsneyti.

Vill binda endi á „reglugerðir sem drepa störf,“

Trump kvaðst vilja binda endi á „reglugerðir sem drepa störf,“ þegar hann undirritaði tilskipunina. Stuðningsmenn forsetans telja að með því að afnema tilskipanir sem draga úr kolefnislosun megi skapa þúsundir starfa í gas, kola og olíuiðnaðinum.

Í yfirlýsingu frá ríkisstjórum New York og Kaliforníu sagði að afstaða forsetans í málinu væri „byggð á miklum misskilningi og að hún hundsaði grundvallar vísindi á sláandi hátt.“

„Með eða án Washington, þá munum við vinna með samstarfsfélögum okkar um heim allan að því að berjast af harðfylgni gegn loftslagsbreytingum og vernda framtíð okkar,“ sagði yfirlýsingu þeirra Jerry Brown ríkisstjóra Kaliforníu og Andrew Cuomo ríkisstjóra New York, sem báðir eru demókratar.

Fjöldi málaferla í bígerð

Ríkin tvö hafa sett sér jafnvel enn strangari markmið um að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, en krafist var í tilskipunum Obama og hafa uppi stórar áætlanir um að koma upp endurnýjanlegum orkugjöfum til rafmagnsframleiðslu.

„Það kann að vera mögulegt að þurrka út loftslagsbreytingar í huga Donald Trumps, en það gerist hvergi annars staðar,“ sagði Brown.

BBC segir þá fjölda málaferla vera í bígerð.

Kalifornía hefur sérstaka undanþágu sem heimilar yfirvöldum í ríkinu til að vera með strangari reglur varðandi útblástur bíla. Trump gæti afturkallað undanþáguna, en slíkt myndi væntanlega leiða til harðrar deilu fyrir dómstólum. 

Trump gæti einnig beðið Bandaríkjaþing um að afnema lögin um hreint loft, en hæstiréttur landsins úrskurðaði árið 2007 að koltvísíringur teljist til mengandi efna samkvæmt lögunum. Segir BBC suma sérfræðinga telja að endanlegur tilgangur með tilskipun forsetans sé að ná því að snúa við þeim dómi.

Verður að sanna mál sitt

Áætlun Obama um hreina orku, þar sem leitast er við að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis við rafmagnsframleiðslu, er þegar fyrir dómstólum.

„Forsetinn fær ekki að endurskrifa bara varnagla; hann verður að sanna að breytingar séu í samræmi við lög og vísindi. Ég tel að það eigi eftir að reynast erfitt,“ sagði David Goldston, náttúruauðlindaráðinu NRDC. Umhverfisverndarsamtök séu nú að undirbúa sig fyrir lagabaráttu og að ná almenningi á sitt band.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert