Ekki reið út í þá sem deildu myndbandinu

Trirat grætur við lík barnsins síns.
Trirat grætur við lík barnsins síns. AFP

Eiginkona taílensks manns sem tók það upp og birti á Facebook þegar hann myrti 11 mánaða gamla dóttur þeirra segist ekki vera reið út í samfélagsmiðilinn eða þá sem deildu myndbandinu.

Í myndbandinu mátti sjá eiginmanninn, Wuttisan Wongtalay hengja dóttur sína. Maðurinn framdi síðan sjálfsvíg en það var ekki sýnt á Facebook.

Upptökurnar sem sýndu morðið á barninu voru aðgengilegar á Facebook síðu mannsins í um sólarhring áður en þær voru teknar niður. Að sögn lögreglu var Wongtalay hræddur um að eiginkona hans ætlaði frá honum.

Taílenskar sjónvarpsstöðvar sýndu í dag myndir af móður barnsins, hinni 21 árs gömlu Chiranut Traiat, grátandi með lík barnsins í fanginu.

„Ég er ekki reið út í Facebook eða kenni þeim um þetta,“ sagði hún í samtali við fréttastofuna AP í dag. „Ég er ekki reið út í þá sem deildu myndbandinu. Ég skil að fólk gerði það því það var misboðið og sorgmætt yfir því sem gerðist.“

Traiat segir að aðeins sé hægt að kenna Wongtalay um. Sagði hún að hann hafi beitt sig ofbeldi og verið í tvö ár í fangelsi áður en þau kynntust.

Sjónvarpsstöðvar sýndu einnig myndbönd af Traiat við kistu dóttur sinnar. Má sjá hana banka blíðlega á kistuna og segja „Barnið mitt, mamma er komin.“

Samkvæmt lögreglu í Taílandi er þetta í fyrsta skipti sem morð er sýnt á Facebook í landinu. Samfélagsmiðillinn hefur nú verið að endurskoða hvernig ofbeldisfullt myndefni er vaktað eftir að maður myrti annan mann í beinni á Facebook í Cleveland í Ohio um páskana.

Myndbandið var á Facebook-síðu morðingjans í meira en tvo tíma.

Frétt Sky News.

Chiranut Traiat með látið barn sitt í fanginu.
Chiranut Traiat með látið barn sitt í fanginu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert