Skilaði barni sem hún hafði keypt

Þegar konan sá að barnið var dökkt á hörund ákvað …
Þegar konan sá að barnið var dökkt á hörund ákvað hún að skila því. AFP

Ítölsk kona sem gerði sér upp þungun og keypti svo barn af rómanskri konu komst að því að barnið var af blönduðum kynþáttum og skilaði því þremur dögum síðar.

Þetta kemur fram í ítölskum fjölmiðlum í dag. Blóðmóðir barnsins, konan sem keypti það og maður sem sá um viðskiptin, hafa öll verið handtekin.

Konan sem keypti barnið er 35 ára. Hún er sögð hafa greitt 20 þúsund evrur, um 2,3 milljónir króna, fyrir það. Rómanska konan sem fæddi barnið varð ólétt af því eftir stutt samband við karlmann frá Malí.

Í febrúar fengu yfirvöld í Latina símtal með fyrirspurn um hvernig ætti að skrá barn sem væri fætt í heimahúsi. Konunni var gefinn viðtalstími en mætti svo aldrei í viðtalið. Þá fór grunur að vakna um að eitthvað misjafnt hefði átt sér stað.

Lögreglan yfirheyrði ítölsku konuna sem játaði að hafa gert sér upp þungun og bera plastpúða innan klæða til að láta líta út fyrir að hún væri ólétt. Púðann hafði hún keypt á netinu. Maður hennar var í fangelsi og hún hafði tvisvar sinnum misst fóstur, að sögn ítalskra fjölmiðla. 

En þegar hún áttaði sig á því að barnið var af blönduðum kynþáttum kom babb í bátinn. Hún taldi sig ekki getað útskýrt fyrir fjölskyldu og vinum hvers vegna barn hennar væri dökkt á hörund.

Lögreglan fann svo barnið í umsjá blóðföður síns sem vinnur í Róm. Barnið hefur nú verið sett í umsjá fósturforeldra en talið er að faðirinn muni fá það aftur síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert