„Þetta kemur fyrir allt of marga“

Rabionowitz var beðin um að skipta um sæti í flugvél.
Rabionowitz var beðin um að skipta um sæti í flugvél. mbl.is/RAX

Renee Rabin­owitz, sem lögsótti ísra­elska flug­fé­lagið El Al vegna mis­mun­un­ar, eft­ir að hún var beðin um að færa sig þegar strang­trúaður gyðing­ur neitaði að sitja við hlið konu, vann málið.

Rabionowitz, sem er 83 ára gömul, var á leið frá New York til Tel Aviv þegar hún tók sæti um borð í vél El Al í desember 2015. Hún flaug á fyrsta farrými þar sem skilrúm skilja sætin að. Hún hafði fengið sér sæti þegar sessunautur hennar kom inn; miðaldra strangtrúaður gyðingur.

Maðurinn kvartaði yfir því að þurfa að sitja við hliðina á konu. Í kjölfarið var Rabionowitz beðin um að færa sig í annað sæti til að verða við ósk mannsins, sem hún gerði þótt það væri henni þvert um geð.

Rabionowitz kvaðst vera mjög kát eftir að niðurstaða kom í málið í gær. Hún naut stuðnings Isra­el Religi­ous Acti­on Center (IRAC), sem berst gegn viðleitni strang­trúaðra til að knýja í gegn aðskilnað karla og kvenna.

„Þetta er algengt og kemur fyrir allt of marga,“ sagði Anat Hoffman, stjórnarformaður samtakanna, um þá pressu sem oft er á konur að færa sig til að þóknast karlmanni. 

Lögfræðingar El Al sögðu fyrir dómi að farþegar bæðu oft um að fá að færa sig til að vera nær ættingjum eða þeir bæðu um að færa sig frá grátandi börnum. Flugfélagið neitaði því að það mismunaði konum.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að það væri andstætt lögum í Ísrael að biðja fólk um að skipta um sæti vegna kyns þess. Flugfélagið þarf að halda námskeið þar sem starfsmönnum þess verður kennt hvað á að gera í aðstæðum svipuðum og þeim sem Rabionowitz lenti í.

Frétt Independent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert