Glæstar byggingar sem þú munt aldrei sjá

Al-Nuri-moskan í Mosúl er ónýt. Turn hennar gnæfði yfir borgina …
Al-Nuri-moskan í Mosúl er ónýt. Turn hennar gnæfði yfir borgina og hafði gert svo frá því á 12. öld. Til hægri má sjá eyðilegginguna sem nú blasir við.

Í Mið-Austurlöndum er að finna mörg af helstu fornu mannvirkjum veraldar. Hin sorglega staðreynd er sú að í átökum síðustu ára og áratuga hafa mörg þeirra eyðilagst. Og fleiri sem enn standa eru í hættu.

Nýjasta dæmið er eyðilegging al-Nuri-moskunnar í Mosúl í Írak. Turn hennar hefur staðið í um 800 ár. Hann var eitt helsta kennileiti borgarinnar; skakkur eins og turninn í Písa. Nú hefur hann verið jafnaður við jörðu. Vígamenn Ríkis íslams kenna bandaríska hernum um en hann kennir aftur á móti vígamönnunum um.

Palmyra

Ríki íslams lagði hluta Palmyra í rúst.
Ríki íslams lagði hluta Palmyra í rúst. AFP

Hin forna borg Palmyra hefur löngum verið kölluð vin í sýrlensku eyðimörkinni og er á heimsminjaskrá UNESCO. Borgin hefur staðið frá því á annarri öld fyrir Krist og í henni má sjá einstakan arkítektur fornalda. Borgin hélt svo áfram að þróast og stækka næstu aldirnar og veitti einstaka mynd af menningarsögu Grikkja, Rómverja og Persa, svo dæmi séu tekin. Vígamenn Ríkis íslams ráða nú enn lögum og lofum í henni og hafa eyðilagt helgidóma hennar, hof og önnur stórkostleg kennileiti fortíðar. 

Moskan í Samarra

Snúni turninn á moskunni í Samarra er einstakt kennileiti.
Snúni turninn á moskunni í Samarra er einstakt kennileiti. Af Wikipedia

Á níundu öld var byggð moska á bökkum Tígris-fljóts norður af Bagdad í Írak. Moskan í Samarra var lengi vel stærsta moska heims og var þekkt fyrir sinn 52 metra háa bænaturn með tröppum sem hringast utan um hann. Hún varð fyrir loftárás árið 2005 í átökum uppreisnarmanna og herja NATO og eyðilagðist þá efsti hluti turnsins sem og veggir í kringum hann.

Búdda-stytturnar í Bamiyan

Hæsta Búdda-styttan var 53 metrar. Hér má sjá hana árið …
Hæsta Búdda-styttan var 53 metrar. Hér má sjá hana árið 1968 og svo staðinn þar sem hún stóð 2008, eftir að talibanar eyðilögðu hana. Af Wikipedia

Á valdatíma talibana í Afganistan voru einstakar styttur úr sandsteini eyðilagðar. Þessar Búddastyttur höfðu staðið í 1.500 ár, sú hæsta var 53 metrar. Stytturnar voru ekki talibönum þóknanlegar svo þeir létu sprengja þær með dínamíti.

Sanaa í Jemen

Óteljandi loftárásir og sjálfsmorðsárásir hafa verið gerðar í Sanaa undanfarin …
Óteljandi loftárásir og sjálfsmorðsárásir hafa verið gerðar í Sanaa undanfarin misseri. Slíkar árásir eru enn nær daglegt brauð. AFP

Höfuðborg Jemen hefur farið illa út úr áralangri borgarastyrjöld þar í landi sem vígamenn Ríkis íslams eru nú stórir þátttakendur í. Þeir hafa gert margar árásir á borgina og sömu sögu er að segja af bandalagsríkjunum, undir forystu Sádi-Araba. Í þessum árásum hafa hlutar borgarinnar eyðilagst, m.a. gamla borgin og virkisveggir hennar sem eru á Heimsminjaskrá UNESCO. 

Bosra í Sýrlandi

Hringleikahúsið Bosra al-Sham er á Heimsminjaskrá UNESCO.
Hringleikahúsið Bosra al-Sham er á Heimsminjaskrá UNESCO. AFP

Búið hefur verið í borginni Bosra í Sýrlandi í 2.500 ár. Hún var áður höfuðborg Rómverja í Arabíu. Í miðju hennar stendur magnað rómverskt hringleikahús sem byggt var á annarri öld. Leikhúsið hefur staðið af sér margar styrjaldir en í stríðinu sem nú geisar hafa verið unnar á því skemmdir í loftárásum. Fornleifafræðingar segja að eyðileggingin sé töluverð.

Moskan í Aleppo

Turn moskunnar í Aleppo fyrir og eftir loftárásina árið 2013.
Turn moskunnar í Aleppo fyrir og eftir loftárásina árið 2013. Myndir/Af Wikipedia

Austurhluti Aleppo er nær rústir einar eftir mikil átök þar í Sýrlandsstríðinu þar sem uppreisnarmenn og stjórnarherinn börðust mánuðum saman um yfirráð. Í borginni er stór moska, byggð árið 715, sem fékk svo frægan turn seint á elleftu öld. Turninn var sprengdur í loft upp í stríðinu í Sýrlandi árið 2013. Sagnfræðingar segja að skemmdirnar séu þær verstu hvað varðar sýrlenska byggingarsögu frá upphafi stríðsins.

Vatnshjólin í Hama

Framsýnir menn reistu mikið áveitukerfi fyrir hundruðum ára á þeim stað sem sýrlenska borgin Hama stendur nú. Vatnshjólin í Hama voru lengi vinsæll viðkomustaður ferðamanna í landinu en fyrstu heimildir um þau eru frá 5. öld. Hjólin eru um 20 metrar í þvermál og hvinurinn þegar þau snúast er einstakur. Sérfræðingar segja að hjólin hafi skemmst í bruna árið 2014.

Upphengda brúin í Deir Ez-zor

Brúin í Deir Ez-zor var mjög falleg.
Brúin í Deir Ez-zor var mjög falleg. Af Wikipedia

Frakkar byggðu einstaklega fallega upphengda brú í borginni Deir Ez-zor í Sýrlandi á þriðja áratug síðustu aldar. Brúin er mikilvæg samgönguæð og var því barist um hana í stríðinu. Hún hrundi í loftárás fyrir nokkru.

Fjársjóðir Nimrud

Sagnfræðingar og fornleifafræðingar hafa lengi látið sig dreyma um að …
Sagnfræðingar og fornleifafræðingar hafa lengi látið sig dreyma um að endurbyggja Nimrud. Svona var sýn þeirra á endurgerðina árið 1853. Af Wikipedia

Nimrud er forn borg í Nineveh-héraði í Írak. Í gegnum aldirnar hefur ríkidæmi hennar verið mikið, byggingarnar oft stórkostlegar og fjársjóði að finna víða. Eftir innrásina í Írak árið 2003 var farið ránshendi um hana og mörgum einstökum dýrgripum komið úr landi. Þeir hafa síðar sumir hverjir endað á söfnum í fjarlægum löndum. Svo langt gengu vígamenn Ríkis íslams á síðasta ári að fara með jarðýtum um fornminjarnar. Nimrud er skammt frá borginni Mosúl sem nú hefur verið barist um mánuðum saman.

Grafhýsi Jónasar

Grafhýsi Jónasar í Mosúl í Írak.
Grafhýsi Jónasar í Mosúl í Írak. AFP

Grafhýsi Jónasar í Mosúl í Írak, þar sem spámaðurinn Jónas er sagður vera grafinn, var gjöreyðilagt í sprengingu Ríkis íslams árið 2014. Grafhýsið er talið hafa verið byggt á áttundu öld og var mikilvægt í sögu bæði kristinna og múslima. 

Moskan í Homs

Khaled Ibn Walid-moskan í Homs í Sýrlandi er mikið skemmd …
Khaled Ibn Walid-moskan í Homs í Sýrlandi er mikið skemmd vegna stríðsins þar í landi. Af Wikipedia

Við lok 19. aldar var reist glæsileg moska í Homs í Sýrlandi á stað þar sem eldri moska hafði staðið öldum saman. Khaled Ibn Walid-moskan er þekkt fyrir fallegan arkitektúr sinn í anda Ottoman-veldisins. Miklir bardagar stóðu nýlega í Homs mánuðum saman og urðu miklar skemmdir og nánast eyðilegging á moskunni. Hún var brennd og sprengd og einstakar innréttingar hennar eyðilagðar.

Greinin er byggð á samantekt CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert