Er Kislayk á förum frá Washington?

Sergey Kislyak hefur verið töluvert á milli tannanna á fólki …
Sergey Kislyak hefur verið töluvert á milli tannanna á fólki vestanhafs og víðar. AFP

Utanríkisráðuneyti Rússlands hefur hafnað því að Sergey Kislyak, sendiherra Rússa í Washington, hafi verið kallaður aftur til Moskvu. Sameiginlegt viðskiptaráð Bandaríkjanna og Rússlands staðfesti hins vegar í dag kveðjumálsverð til heiðurs Kislyak 11. júlí nk.

Kislyak hefur verið töluvert á milli tannanna á fólki vestanhafs og víðar vegna samskipta hans við nána samstarfsmenn Donald Trump í aðdraganda forsetakosninganna í fyrra. Tíðindin af brotthvarfi hans frá Bandaríkjunum þykja því ekki koma á óvart, ekki síst í ljósi rannsóknar bandarískra yfirvalda á tengslum Trump við Kreml.

Maria Zakharova, talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins, sagði í yfirlýsingu á Facebook að það væri undir forsetanum Vladimir Pútín komið að kalla sendiherrann heim og skipa eftirmann og það gæti tekið marga mánuði eftir að ákvörðun lægi fyrir.

Ef til þess kæmi yrði Kislyak minnst sem manns sem gerði allt til að rækta tvíhliða samskipti ríkjanna við „flóknustu aðstæður“.

Samskipti Kislyak við Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Donald Trump, urðu til þess að síðarnefndi neyddist til að segja af sér og þá var dómsmálaráðherrann Jeff Sessions þráspurður um samskipti sín við sendiherrann þegar hann kom fyrir þingnefnd á dögunum.

Jared Kushner, tengdasonur og ráðgjafi Trump, er einnig sagður hafa átt fundi með Kislayk áður en Trump tók við embætti.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert