Kynlífsleysi „andleg misnotkun“

Að neita körlum um kynlíf jafngildir misnotkun, segir þingmaðurinn.
Að neita körlum um kynlíf jafngildir misnotkun, segir þingmaðurinn. AFP

Malasískur þingmaður hefur verið gagnrýndur fyrir að segja að konur sem neita eiginmönnum sínum um kynlíf gerist sekar um „andlega og tilfinningalega misnotkun“.

Ummælin lét þingmaðurinn falla í umræðum um heimilisofbeldi. Sagði hann að eiginmenn sættu oft árásum, en þær væru tilfinningarlegar frekar en líkamlegar.

„Jafnvel þótt menn séu sagðir líkamlega sterkari en konur, þá finnast tilvik þar sem eiginkonur meiða eða misnota eiginmenn sína stórkostlega,“ sagði Che Mohamad Zulkifly Jusoh.

„Venjulega felst þetta í því að konurnar blóta eiginmönnum sínum; það er tilfinningaleg misnotkun. Þær mógða eiginmenn sína og neita að mæta kynferðislegum þörfum þeirra. Allt þetta er andleg og tilfinningaleg misnotkun.“

Marina Mahathir, þekktur kvenréttindafrömuður, segir ummæli þingmannsins byggjast á fáfræði.

„Konur hafa rétt á því að segja nei við kynlífi; þetta er gömul kredda að þegar þú kvænist konu eignist þú líkama hennar,“ segir hún. „Þetta virkar ekki þannig. Það er fáránlegt að segja að það jafngildi misnotkun ef konur segja nei við kynlífi.“

Hinn 58 ára þingmaður lét hins vegar ekki gott heita heldur sagði einnig að það jafngilti einnig misnotkun að koma í veg fyrir að múslimskur maður tæki sér aðra eiginkonu.

Í Malasíu mega múslimskir karlmenn, lögum samkvæmt, eiga allt að fjórar konur en þeir verða að fá heimild til þess hjá dómstólum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ummæli þingmanns um konur vekja reiði; í apríl sl. sagði einn stjórnarþingmanna að stúlkur niður í 9 ára væru „líkamlega og andlega“ reiðubúnar til að ganga í hjónaband.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert