Lifði af að vera grafinn lifandi

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Vikugamall indverskur drengur komst lífs af eftir að hafa legið nokkrar klukkustundir í gröf. Móðir barnsins, fórnarlamb nauðgunar, gróf barnið lifandi. Það voru þorpsbúar í Barwani í Madhya Pradesh sem björguðu barninu eftir að hafa heyrt það gráta.

Hin 16 ára móðir drengsins gróf hann „til þess að losna við hann“, nokkrum dögum eftir að hún fæddi barnið á heimili foreldra sinna. Nafn hennar hefur ekki verið gefið upp.

Börn sem voru að leik nálægt gröfinni létu fullorðna vita þegar þau þóttust hafa heyrt grát en drengurinn fannst undir um 25 sm af mold.

Hann hafði verið bitinn af skordýrum og var kvefaður en er allur að braggast og verður komið fyrir á ríkisreknu barnaheimili, að sögn yfirvalda.

„Fórnarlambið ákvað að losa sig við barnið og grafa það í holu nærri heimili foreldra sinna,“ sagði Prashant Khare, lögreglustjóri Barwani, í samtali við AFP.

Í kjölfarið ferðaðist hún aftur heim til tengdaforeldra sinna í ríkinu Maharashtra.

Stúlkan verður mögulega ákærð fyrir tilraun til manndráps.

Hún sagði barnið hafa komið undir þegar henni var nauðgað en 17 ára piltur var handtekinn í tengslum við málið. Foreldrar stúlkunnar neyddu hana til að ganga í hjónaband til að breiða yfir árásina en eiginmaður hennar neitaði að gangast við barninu.

Hvers konar kynlíf með einstaklingi undir 18 ára er ólöglegt á Indlandi. Nauðganir eru hins vegar óhugnanlega algengar en árið 2015 voru 20.000 kynferðisbrot gegn börnum tilkynnt til yfirvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert