Hryðjuverkamaður skotinn til bana

AFP

Spænskir fjölmiðlar segja að einn þeirra sem grunaður er um að hafa komið að hryðjuverkaárásinni í Barcelona á Spáni í dag, sem kostaði þrettán manns lífið, hafi verið skotinn til bana í skotbardaga við lögregluna í útjaðri borgarinnar.

Þetta kemur fram á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC.

Einnig er fullyrt að tveir hafi verið handteknir í tengslum við árásina sem ennfremur olli því að í það minnsta 50 manns urðu fyrir meiðslum en fyrri fréttir sögðu að einn hefði verið tekinn höndum. Breska dagblaðið Independent segir tvær handtökur staðfestar.

Uppfært: Ekið var á tvo lögreglumenn á vegatálma í Barcelona í kvöld en ekki hefur verið staðfest að það tengist hryðjuverkinu. Ökumaður bifreiðarinnar var sá sem var skotinn til bana. Þeir sem voru handteknir eru taldir hafa framið hryðjuverkið.

Samkvæmt frétt AFP eru lögreglumennirnir tveir ekki í lífshættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert