350 börn tekin úr skóla vegna brúðkaups

Saríinn er sagður hafa verið 3,2 km langur. 250 börn …
Saríinn er sagður hafa verið 3,2 km langur. 250 börn þurfti til að bera hann á eftir brúðhjónunum. AFP

Yfirvöld á Srí Lanka hafa nú hjón til rannsóknar eftir að 250 grunnskólanemar voru fengnir til að bera „metlangan“ sarí brúðarinnar á brúðkaupsdaginn. Hundrað til viðbótar þjónuðu sem blómastúlkur.

Brúðkaupið fór fram í Kandy á fimmtudag en nemendurnir voru allir úr skóla sem nefndur er eftir fyrsta ráðherra svæðisins, Sarath Ekanayaka, sem var heiðursgestur við athöfnina.

Saríinn var sagður sá lengsti sem srílönsk brúður hefur nokkurn tímann klæðst.

Málið er til rannsóknar hjá barnaverndaryfirvöldum. Yfirmaður þeirra, Marini de Livera, sagði mikinn þunga í rannsókninni, enda mætti uppátækið ekki verða að tísku.

Hún sagði að notkun skólabarna við athafnir á borð við brúðkaup á skólatíma væri lögbrot og að brotlegir gætu átt yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsi.

„Það sem þau gerðu stríðir gegn réttindum barnsins,“ hefur Guardian eftir Livera. Sagði hún refsivert að hamla menntun barna, ógna öryggi þeirra og svipta þau reisn.

Hjónin eru til rannsóknar hjá barnaverndaryfirvöldum.
Hjónin eru til rannsóknar hjá barnaverndaryfirvöldum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert