Trump sendir fjölskyldu hermanns fé

Donald Trump Bandaríkjaforseti bauðst persónulega til að greiða fjölskyldunni 25.000 …
Donald Trump Bandaríkjaforseti bauðst persónulega til að greiða fjölskyldunni 25.000 dollara, en ekkert hefur enn bólað á ávísuninni. AFP

Hvíta húsið segir Donald Trump Bandaríkjaforseta hafa sent ávísun til fjölskyldu látins hermanns eftir að fjölskyldan greindi frá því að forsetinn hefði ekki staðið við loforð sitt um að senda þeim ávísun.

Hermaðurinn lést í Afganistan og í símtali til fjölskyldunnar í júní þá bauðst Trump til að senda þeim 25.000 dollara af sínu eigin fé.

BBC segir talsmenn Hvíta hússins hafa sagt „andstyggilegt“ hvernig fjölmiðlar hafi nýtt sér málið.

Deilan kom fram í dagsljósið eftir að Trump neitaði því að hafa sýnt ekkju hermanns tillitsleysi, en greint var frá því í gær að Trump hefði sagt ekkju hermanns sem lést í Níger í fyrr í mánuðinum að hermaðurinn hefði vitað að þetta gæti gerst.

„Maðurinn sagði þetta“

Síðar sama dag greindi Washington Post frá símtali sem Chris Baldridge, faðir látins hermanns, hafði fengið frá forsetanum. Sonur hans Dillon Baldridge lést í Afganistan í sumar og sagði Baldridge að hann hefði í samtali sínu við forsetann lýst yfir óánægju sinni með greiðslur Bandaríkjahers til fjölskyldna þeirra hermanna sem látast. Honum til mikillar undrunar bauðst Trump til að senda honum ávísun frá sér persónulega og að koma upp fjársöfnun á netinu.

Fjölskyldan sagði Washington Post að ekkert bæri hins vegar enn á ávísuninni.

„Ég var orðlaus,“ sagði Baldridge. „Ég vildi að ég hefði tekið þetta upp, af því að maðurinn sagði þetta. Hann sagði: „Enginn annar forseti hefur gert neitt þessu líkt, en ég ætla að gera það“,“ rifjar Baldridge upp.

Lindsay Walters talsmaður Hvíta hússins sagði bandarískum fjölmiðlum nokkru eftir að fréttin birtist að ávísunin hefði verið send. „Það er andstyggilegt að fjölmiðlar skuli taka eitthvað sem er gjafmilt og einlægt, sem forsetinn gerði persónulega, og nota það til að kynda undir hlutlæga stefnu fjölmiðilsins.“

Bera engan kala til Trump vegna tafarinnar

Jessie Baldridge, stjúpmóðir hermannsins, sagði fjölmiðlum að þau bæru engan kala til Trump vegna tafarinnar. „Okkur fannst hann bara vera að segja eitthvað fallegt,“ sagði hún við WTVD sjónvarpsstöðina í Norður Karólínuríki. „Við fengum samúðarbréf en enga ávísun og við grínuðumst bara með það“.

Embættismaður í Hvíta húsinu sagði síðar um greiðsluna að hún væri búin að vera í vinnslu frá því að Trump ræddi við föðurinn. „Það er talsvert ferli, sem getur falið í sér starf marga stofnanna þegar forsetinn á í samskiptum við almenning, ekki hvað síst þegar hann greiðir af eigið fé,“ sagði hann.

Trump hefði ítrekað fylgt því eftir hvort ávísunin hefði verið send og það hefði nú verið gert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert