Ætlar að halda aftur af N-Kóreu

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans.
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans. AFP

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, hefur heitið því að starfa með Bandaríkjunum, Kína og Rússlandi við að halda aftur af kjarnorkuógn Norður-Kóreu með „sterkum og einbeittum diplómatískum leiðum“ eftir að hafa sigrað örugglega í þingkosningum í landinu.

Flokkur hans hlaut tvo þriðjuhluta atkvæða  og hefur Abe heitið því að ná þjóðarsátt um málefni sem óeining hefur verið um.

Á blaðamannafundi eftir sigurinn sagðist Abe ætla að „festa í sessi náið samstarf“ vegna Norður-Kóreu við Donald Trump þegar Bandaríkjaforsetinn heimsækir Japan í næsta mánuði og í framhaldinu ætlar hann að ræða um ástandið á Kóreuskaga við Kínverja og Rússa.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa hótað að „sökkva“ Japan og skutu þau tveimur flugskeytum yfir norðurhluta landsins. Málefni Norður-Kóreu voru áberandi í snarpri tólf daga kosningabaráttu Abe, sem hefur heitið því að leysa vandann á Kóreuskaganum með samningaviðræðum.

„Ég lagði áherslu á varnarmál vegna þess að ég hef áhyggjur af Norður-Kóreu. Þess vegna valdi ég flokkinn sem mun starfa náið að því málefni,“ sagði einn kjósandi, hinn 66 ára Tsuyoshi Ushijima, við AFP-fréttastofuna.

Japanskir fjölmiðlar sögðu að það sem hefði hjálpað til við öruggan sigur Abe væri veikburða stjórnarandstaða.

„Kjósendur töldu að stjórnarandstöðuflokkarnir gætu ekki stjórnað landinu og þess vegna kusu þeir forsætisráðherrann Abe, sem er að minnsta kosti betri, jafnvel þótt þeir væru ekki að fullu sáttir við ríkisstjórnina,“ sagði dagblaðið Nikkei.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert