Flóttamannabúðirnar á Manus rýmdar

Innflytjendayfirvöld flytja hælisleitendur með valdi úr búðunum á Manus.
Innflytjendayfirvöld flytja hælisleitendur með valdi úr búðunum á Manus. AFP

Lögreglan á Papúa Nýju-Gíneu segir búið að tæma flóttamannabúðir sem áströlsk stjórnvöld ráku á eyjunni Manus. Þetta staðfesti lögregla við fréttamenn í dag, en flóttamenn og hælisleitendur sem dvalið höfðu í búðunum höfðu neitað að yfirgefa þær af ótta um eigið öryggi.

Búðunum var form­lega lokað um síðustu mánaða­mót eft­ir að hæstirétt­ur Papúa Nýju-Gín­eu komst að því að búðirn­ar stæðust ekki stjórn­ar­skrá lands­ins. Búðirn­ar hafa frá þeim tíma verið án vatns, raf­magns og eins hafa mat­ar­birgðir verið á þrot­um. 

Rútur fluttu um 300 flóttamenn og hælisleitendur úr búðunum í dag og hefur þeim öllum verið komið fyrir annars staðar. Lögregla réðst í gær til atlögu gegn hælisleitendunum í búðunum í því skyni að fá þá til að yfirgefa þær.

BBC hefur eftir nokkrum hælisleitendanna að lögregla hafi slegið til þeirra með prikum. Peter Dutton, innflytjendaráðherra Ástralíu, segir fullyrðingar um ofbeldi hins vegar vera ýkjur. Ástralska lögreglan segist ekki hafa tekið þátt í aðgerðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert