Johnson drakk ferskjusafa frá Fukushima

Utanríkisráðherrann virtist njóta ferskjusafans.
Utanríkisráðherrann virtist njóta ferskjusafans. AFP

Myndband af Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, að drekka ferskjusafa frá Fukushima, svæðinu þar sem kjarnorkuslys varð í kjölfar jarðskjálfta og flóðbylgju árið 2011, hefur ferðast um samfélagsmiðla í dag.

Í myndbandinu sést utanríkisráðherrann taka gúlsopa af ferskjusafa úr dós sem framleiddur var í Fukushima í Japan. Það var japanski kollegi hans, Taro Kono, utanríkisráðherra Japan, sem tók myndbandið upp á snjallsímann sinn og birti á Twitter. Tilgangurinn var að sýna fram á að öruggt væri að neyta vara sem framleiddar væru á svæðinu. Fjallað var um mynbandið á The Telegraph.

Yfir 50 lönd settu innflutningsbann á vörur framleiddar á svæðinu í kjölfar kjarnorkuslyssins, en landsvæðið og byggðirnar í kring urðu fyrir alvarlegri kjarnorkugeislun þegar kjarnaofnar kjarnorkuversins biluðu þegar hamfaraflóðbylgja skall á verinu. Í helmingi landanna er innflutningsbannið enn í gildi, þar á meðal í Bandaríkjunum og Kína.

Johnson og Kono áttu fund í London, ásamt varnarmálaráðherrum landanna, þar sem rætt var um öryggismál. Það var Kono sem færði kollega sínum drykkinn.

Hann virtist að minnsta kosti kunna að meta bragðið: „Mjög gott… namm,“ sagði utanríkisráðherrann eftir að hafa tekið fyrsta sopann. Hann gaf sér kjölfarið smá tíma til að reyna að lesa innihaldslýsinguna áður en hann tók annan sopa og viðbrögðin voru þau sömu: „Nammi namm“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert