Lokaútgáfa skattafrumvarps tilbúin

Donald Trump vill að nýja skattafrumvarpið verði afgreitt fyrir jól.
Donald Trump vill að nýja skattafrumvarpið verði afgreitt fyrir jól. AFP

Skattafrumvarp repúblikana verður lagt fyrir í báðum deildum Bandaríkjaþings í næstu viku. Verði frumvarpið samþykkt munu skattar á stór fyrirtæki lækka úr 35% í 20%. Þá mun hæsta þrep tekjuskatts lækka úr 39,6% í 37%. Donald Trump Bandaríkjaforseti vill að frumvarpið verði að lögum fyrir jól.

Um er að ræða umfangsmestu breytingu sem gerð hefur verið á skattkerfi Bandaríkjanna í 30 ár. Repúblikanar eru í meirihluta bæði í fulltrúa- og öldungadeild þingsins. Sarah Sanders, talskona Hvíta hússins, segir að löggjöfin verði til þess að efnahagskerfi Bandaríkjanna verði samkeppnishæfara, laun hækki og hagvöxtur aukist.

Demókratar eru ekki hlynntir frumvarpinu og halda því að fram að það komi einungis þeim efnamestu til góðs. Skattanefnd, sem er óháð stjórnamálaflokkum, segir breytingarnar muni auka skuldir þjóðarbúsins töluvert á næstu 10 árum.

Þá hefur Philip Alston, sérstakur talsmaður Sameinuðu Þjóðanna í málefnum sárrar fátæktar og mannréttinda, varað við því að frumvarpið ógni stöðu þeirra fátækustu í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert