Hitamælirinn þoldi ekki kuldann

Hér má sjá mynd sem tekin var skömmu áður en …
Hér má sjá mynd sem tekin var skömmu áður en hitamælirinn bilaði. Af Instagram

Stafrænn hitamælir, sem hafði fyrir nokkru verið komið upp í kaldasta byggða bóli heims, þorpinu Oymyakon í Jakútíu í Síberíu, þoldi ekki kuldann sem þar var fyrir nokkrum dögum og bilaði. Síðasta talan sem mælirinn sýndi var -62°C. Íbúar í Oymyakon segjast hafa mælt allt að -67°C við heimili sín þann dag sem er nálægt heimsmetinu, -67,7°C, sem var sett í þorpinu árið 1933.

Opinberar mælingar staðfesta hins vegar að frostið hafi mest verið „aðeins“ -59°C.

Frostmetið í Oymyakon er þó ekki það mesta sem mælst hefur á jörðinni en það gerði NASA á Suðurskautslandinu árið 2013. Með því að meta gögn úr gervitunglum þótti ljóst að frostið hefði farið niður í -94,7°C þar.

Í þorpinu Oymyakon, sem er í um 750 metra hæð yfir sjávarmáli, eru aðeins fimmtíu manns með fasta búsetu. Í nágrenni þorpsins er heit vatnsuppspretta sem varð til þess á sínum tíma að fólk settist þar að, m.a. vegna þess að þangað sóttu bændur með hreindýrahjarðir sínar að vori.

Kuldinn getur orðið mjög mikill í janúar og febrúar, að meðaltali í kringum -50°C. Í þorpinu er ein verslun og henni er aðeins lokað ef frostið fer undir -52 gráður.

Í þeirri viðleitni þorpsbúa að laða að ferðamenn var settur upp hitamælir í þorpinu í fyrra. En eins og fyrr segir þoldi hann ekki frostið.

Frétt Siberian Times um málið.

#полюсхолода 14.01.2018

A post shared by Сивцева (@sivtseva9452) on Jan 14, 2018 at 4:36am PST



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert