Búið að opna fyrir flugumferð

AFP

Loka þurfti Schiphol-flugvelli í Amsterdam tímabundið í morgun vegna óveðurs. Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, er flugvél félagsins nánast á áætlun  í dag þar sem búið var að opna flugvöllinn þegar Icelandair-vélin kom þangað í morgun. Þar sem vél WOW air er fyrr á ferð verður seinkun á flugvél félagsins sem er að koma frá Amsterdam og lendir hún klukkan 16.30 í stað 14.

Flugvellinum var lokað í morgun en flugumferð hófst að nýju um Schiphol klukkan 12 að staðartíma, klukkan 11 að íslenskum tíma. 

Skömmu áður en flugvellinum var lokað gaf veðurstofan út rauða viðvörun sem er hæsta viðbúnaðarstig. 

Ferðir járnbrauta liggja enn niðri í Hollandi vegna óveðurs en fjölmörg tré hafa fallið á járnbrautateina í rokinu sem mælist rúmir 40 metrar á sekúndu. Talið er að veðrið gangi fljótlega niður en lokað er fyrir umferð víða á þjóðvegum landsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert