Gert að bera myndavélar í fíkniefnaðgerðum

Ronald dela Rosa, lögreglustjóri Filippseyja, segir lögrelgumönnum verða gert að …
Ronald dela Rosa, lögreglustjóri Filippseyja, segir lögrelgumönnum verða gert að bera líkamsmyndavélar er þeir taka þátt í fíkniefnaaðgerðum. AFP

Lögreglumönnum á Filippseyjum verður á næstunni gert að bera líkamsmyndavél er þeir taka þátt í fíkniefnaaðgerðum og er þeir fara inn á heimili grunaðra einstaklinga að degi til. Er þessum aðgerðum ætlað að draga tortryggni í garð þeirra lögreglumanna sem taka þátt í blóðugu stríði gegn forsetans, Rodrigo Duterte, gegn fíkniefnum.

Lögreglustjórinn Ronald dela Rosa greindi frá þessu í dag og sagði lögreglumönnum verða gert að vera með myndavélar á sér svo handtökuaðgerðir yrðu teknar upp á myndband.

„Um leið og búnaðurinn er kominn, þá þurfa þeir að nota hann,“ sagði dela Rosa. „Stefnan verður sú að ekki verði farið í neinar fíkniefnaaðgerðir án myndavéla.“ Ekki liggur hins vegar fyrir hvenær gert er ráð fyrir að búnaðurinn verði orðinn aðgengilegur fyrir lögreglu.

Samkvæmt gögnum lögreglu hafa tæplega 4.000 manns sem grunaðir voru í tengslum við fíkniefnamál verið myrtir frá því að Duterte tók við völdum í júní 2016 og hóf fíkniefnastríð sitt. Fullyrðir lögregla að allir hafi þeir látist vegna þess að þeir sýndu ofbeldisfullan mótþróa gegn handtöku.

Mannréttindasamtök hafa hins vegar sakað lögreglu um að taka meinta eiturlyfjaneytendur og fíkniefnasala af lífi með skipulögðum hætti án dóms og laga og að hylmt sé síðan yfir aðgerðir þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert