13 létust þegar þyrla hrapaði

7,2 stiga skjálfti reið yfir suðurhluta Mexíkó í gær.
7,2 stiga skjálfti reið yfir suðurhluta Mexíkó í gær. Ljósmynd/Twitter

13 létust í þyrluslysi í suðurhluta Mexíkó í dag. Innanríkisráðherra Mexíkó, Alfonso Navarrete, og ríkisstjóri Oaxaca, Alejandro Murat, voru um borð í þyrlunni í þeim tilgangi að skoða svæðið þar sem upptök öflugs jarðskjálfta voru, en skjálfti af stærðinni 7,2 reið yfir Mexíkó í nótt.

Frétt mbl.is: Innanríkisráðherra Mexíkó í þyrluslysi

Þyrluflugmaðurinn missti stjórn á þyrlunni í um 40 metra hæð þegar flugmaðurinn bjó sig undir að lenda þyrlunni. Allir um borð í þyrlunni komust lífs af þegar hún lenti á tveimur sendiferðabílum en 13 manns á jörðu niðri létu lífið, þar af þrjú börn.

12 manns létust samstundis, fimm konur, fjórir karlmenn og þrjú börn, en einn lést á sjúkrahúsi.

Ekki er vitað um dauðsföll af völdum jarðskjálftans. Hann fannst víða, meðal annars í Mexíkóborg þar sem þúsundir manna hlupu út á götur borgarinnar þegar skjálftinn reið yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert