Ætluðu að banna brjóst Marianne

AFP

Facebook hefur viðurkennt að það hafi verið mistök að banna auglýsingu á miðlinum með hinu fræga málverki Frelsið leiðir fólkið eftir Eugene Delacroix þar sem á því má sjá berbrjósta kvenhetju, þjóðartákn frönsku byltingarinnar.

Verk Delacroix er frá nítjándu öld og var nú notað í auglýsingaherferð fyrir leiksýningu í París. Leikstjóri verksins segir að auglýsingin hafi hins vegar verið bönnuð á Facebook.

„Tæplega klukkutíma eftir að auglýsingin fór í loftið þá var búið að blokka hana með þeim skilaboðum að það mætti ekki sýna nekt,“ segir leikstjórinn Jocelyn Fiorina. 

Hann greip því til þess ráðs að birta auglýsinguna aftur en nú var frelsishetjan með borða yfir brjóstin sem á stóð: „Ritskoðað af Facebook“.

Konan á myndinni er ekki hvaða kona sem er, hún er Marianne, þjóðartákn franska lýðveldisins.

Facebook hefur áður bannað auglýsingu með málverkinu en í þetta sinn ákvað samfélagsmiðillinn að biðjast afsökunar og sagði að um mistök hefði verið að ræða. „Frelsið leiðir fólkið á erindi á Facebook. Við höfum þegar látið notandann vita að það má birta hana,“ sagði í yfirlýsingu frá Facebook.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert