Gíslataka í franskri verslun

Fyrir utan stórmarkaðinn Super U í Trebes.
Fyrir utan stórmarkaðinn Super U í Trebes. Skjáskot/Google Maps

Skotárás og gíslataka var gerð í stórmarkaði í suðurhluta Frakklands í morgun. Aðgerð lögreglunnar á vettvangi stendur enn yfir. Óttast er að tveir hafi þegar verið skotnir til bana. Það hefur lögreglan ekki enn staðfest. „Við óttumst því miður að einn sé látinn, en við getum ekki sent lækni á staðinn,“ hefur AFP-fréttastofan eftir lögreglustjóranum Jean-Valery Lettermann. Í nýjustu frétt er þó sagt að tveir séu líklega látnir.

Lögreglumaður særðist að því er talið er í annarri skotárás á sama landssvæði í morgun, að því er fram kemur í frétt AFP.

Í frétt AFP er haft eftir lögreglu að gíslatökumaðurinn segist vígamaður hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams.

Lögreglumaðurinn var skotinn í nágrenni bæjarins Carcassonne og svipuðum tíma var gerð skotárás og fólk í kjölfarið tekið í gíslingu í stórmarkaði í bænum Trèbes skammt frá Montpellier. Um fimmtán mínútna akstur er á milli þessara tveggja bæja og enn er ekki ljóst hvort að um sama árásarmann er að ræða. Í frétt BBC  segir að maður hafi skotið á tvo lögreglumenn og sært annan þeirra en þó ekki lífshættulega. Hann sé líklega sá hinn sami og nú er með fólk í gíslingu. Maðurinn er sagður hafa skotið á lögreglumennina, sem voru úti að skokka, úr bíl.

Segja árásina hryðjuverk

„[Árásarmaðurinn] kom inn í Super U-stórmarkaðinn um klukkan 11.15 og skothríð hófst,“ segir heimildarmaður AFP. Bæjaryfirvöld segja í Twitter-færslu að svæði umhverfis stórmarkaðinn sé nú lokað fyrir almennri umferð á meðan aðgerðir lögreglu standa yfir.

Yfirvöld segja gíslatökuna vera hryðjuverk og viðbrögð þeirra séu eftir því. Hundruð lögreglumanna eru á vettvangi.

Uppfært kl 11:52: AFP-fréttastofan hefur eftir lögreglu að tveir séu látnir. 

Gíslatakan er í stórmarkaði í bænum Trèbes.
Gíslatakan er í stórmarkaði í bænum Trèbes. Skjáskot/Google Maps
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert