Lögreglan grípur til aðgerða

Aðgerðasinnar úr hópnum Génération Identitaire og Defend Europe hafa sett …
Aðgerðasinnar úr hópnum Génération Identitaire og Defend Europe hafa sett á stað aðgerðaáætlun sem nefnist: Mission Alpes og hafa meðal annars sett upp þetta merki í Col de l'Echelle. AFP

Innanríkisráðherra Frakklands, Gerard Collomb, ætlar að senda fjölda lögreglumanna að landmærum landsins við Ítalíu í Ölpunum eftir mótmæli andstæðinga flóttafólks og stuðningsmanna þeirra við landamærin um helgina.

AFP

Collomb segir að þetta verði gert til þess að koma í veg fyrir átök milli aðgerðasinna sem eru á móti fólki á flótta og aðgerðasinna sem styðja við fólk á flótta. Þessir hópar hafa komið saman við landamærin – annar hópurinn til að koma í veg fyrir komu flóttafólksins en hinn hópurinn til að aðstoða fólk yfir landamærin.

Hann segir að það verði hlutverk lögreglu að tryggja öryggi á landamærum og það verði tryggt með aðkomu lögreglu. Í gær samþykkti franska þingið að breyta innflytjendalöggjöf landsins. 

AFP

Seint á laugardagskvöldið og snemma í gær komu aðgerðarsinnar úr litlum öfga hópi saman og lokuðu leið um landamærin þar sem þeir teldu að þarna kæmust ólöglegir innflytjendur inn til landsins. Þetta vakti mikla reiði meðal aðgerðarsinna sem styðja við flóttafólk. Síðdegis í gær fór hópur ítalskra og franskra aðgerðasinna yfir landamærin (Montgenevre Pass) með 30 flóttamenn og lentu þeir í átökum við lögreglu á leið sinni yfir landamærin.

AFP

Að sögn ráðherrans varð lögreglan fyrir ofbeldi og eins voru unnar skemmdir á lögreglubíl. Þúsundir ungra manna frá frönskumælandi ríkjum í vesturhluta Afríku hafa undanfarin tvö ár komið fótgangandi yfir fjöllin í þeirri von að fá vinnu í Frakklandi. Undanfarna mánuði hafa fréttir af leiðinni um Alpana farið víða og sífellt fjölgar í hópi þeirra sem vilja freista gæfunnar í Frakklandi. Margir þeirra sem hafa komið til Frakklands þessa leið eru frá fyrrverandi nýlendum Frakka, Gíneu og Fílabeinsströndinni. 

Mjög litlar líkur eru á að þeir fái stöðu flóttafólks þar sem þeir teljast farandfólk (migrants, fólk sem flýr heimalandið af efna­hags­leg­um ástæðum, ekki vegna þess að líf þess sé í húfi). 

AFP

Collomb segir að lögunum sem samþykkt voru í gær sé ætlað að stjórna betur komu innflytjenda og að með þeim verði hægt að stytta biðtímann vegna umsókna um hæli um helming. Það þýðir að hann verði um hálft ár. Eins verði auðveldara að senda fólk úr landi sem er synjað um hæli á grundvelli þess að þeir séu farandfólk ekki flóttafólk.

Margir hægrimenn hafa gagnrýnt nýju lögin og segja þau taka of mildilega á hælisleitendum. Margir vinstrimenn gagnrýna lögin aftur á móti fyrir að vera of þvingandi.

Frétt Le Parisien

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert