Kim heimsækir Moon

Horft á milli ríkja á Kóreuskaganum.
Horft á milli ríkja á Kóreuskaganum. AFP

Kim Jong-un verður á morgun fyrsti leiðtogi Norður-Kóreu til þess að fara yfir landamærin til Suður-Kóreu frá því Kóreu-stríðinu lauk árið 1953. Boðað hefur verið til fundar milli hans og forseta Suður-Kóreu, Moon Jae-in, á landamærunum klukkan 09:30 að staðartíma, klukkan 00:30 að íslenskum tíma.

Leiðtogar ríkjanna tveggja munu ræða nýlegar vísbendingar um vilja N-Kóreu um að hætta kjarnorkuvopnatilraunum. Yfirvöld í Seúl vara hins vegar við því að erfitt geti reynst að ná samkomulagi við Pyongyang þar sem kjarnorku- og eldflaugatækni N-Kóreu hefur fleygt fram frá því síðast var sest að samningaborðinu.

Fundurinn aðra nótt er sá þriðji af þessu tagi en þeir fyrri voru haldnir árið 2000 og 2007. Stefnt er að fundi Kim og forseta Bandaríkjanna, Donald Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert