Norður-Kórea til hvenær sem er

Norður-Kórea er reiðubúin til viðræðna hvenær sem er og með hvaða hætti sem er. Varautanríkisráðherra landsins, Kim Kye-gwan, segir mjög miður að Trump hafi tekið ákvörðun um að hætta við leiðtogafundinn sem til stóð að halda 12. júní.  

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær að hann hefði aflýst fyrirhuguðum fundi sínum með einræðisherra Norður-Kóreu sem ráðgert hafði verið að halda í Singapúr 12. júní. Hann kvaðst hafa ákveðið þetta vegna „mikillar reiði og ódulins fjandskapar“ í garð Bandaríkjanna í nýlegum yfirlýsingum einræðisstjórnarinnar í Norður-Kóreu.

Forsetinn birti bréf sem hann sendi Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, þar sem hann kvaðst ekki geta átt fund með honum að svo stöddu vegna yfirlýsinga Norður-Kóreustjórnar. „Þið talið um kjarnorkumátt ykkar, en okkar er svo gríðarlegur að ég bið til Guðs að við þurfum aldrei að beita honum.“

Trump kvaðst þó vona að hann gæti átt fund með Kim einhvern tíma síðar. „Ef þér snýst hugur varðandi þennan mikilvæga leiðtogafund skaltu ekki hika við að hringja í mig eða skrifa mér. Heimsbyggðin, einkum Norður-Kórea, hefur misst af frábæru tækifæri til að tryggja varanlegan frið, mikla hagsæld og auðlegð.“

Trump sagði seinna í Hvíta húsinu að ef Norður-Kóreumenn gripu til „heimskulegra eða glannalegra aðgerða“ myndu Suður-Kóreumenn og Japanar svara þeim af hörku ásamt Bandaríkjamönnum.

Áður hafði Trump sagt að hann teldi að Kim væri „mjög einlægur“ í loforðum sínum um kjarnorkuafvopnun og stuðningsmenn hans voru jafnvel farnir að tala um að forsetinn verðskuldaði friðarverðlaun Nóbels fyrir að knýja einræðisherrann til samningaviðræðna um kjarnorkuafvopnun.

Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, efndi til skyndifundar með öryggisráðgjöfum sínum til að ræða þá ákvörðun Trumps að aflýsa fundinum með leiðtoga Norður-Kóreu.

Moon sagði það væri „mjög sorglegt“ að ekki skyldi verða af fundinum 12. júní og kvaðst vona að hann yrði haldinn síðar. „Kjarnorkuafvopnun og varanlegur friður á Kóreuskaga er verkefni sem ekki er hægt að hætta við eða fresta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert