Flestir sækja um vernd í Bandaríkjunum

Samstaða og samstarf er mikilvægara heldur en misvel heppnaðar aðgerðir einstakra ríkja þegar kemur að málefnum flóttafólks, segir yfirmaður flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), Filippo Grandi. Bandaríkin hafa tekið við af Þýskalandi sem það ríki sem fær flestar umsóknir um alþjóðlega vernd.

Í dag er alþjóðlegi flóttamannadagurinn en samkvæmt nýjum tölum frá UNHCR voru 68,5 milljónir á flótta í árslok 2017. Af þeim voru 16,2 milljónir sem urðu veglausar á árinu 2017, annaðhvort í fyrsta skipti eða endurtekið og jafngildir það 44.500 manns á flótta á hverjum degi, eða að einstaklingur verði veglaus á tveggja sekúndna fresti.

Flóttamenn sem hafa flúið heimaland sitt vegna átaka og ofsókna voru um 25,4 milljónir af þessum 68,5 milljónum. Það er 2,9 milljónum meira en árið 2016 og mesta aukningin sem UNHCR hefur séð á einu ári. Umsækjendum um alþjóðlega vernd, sem enn biðu niðurstöðu umsóknar sinnar 31. desember 2017, fjölgaði á sama tíma um 300.000, urðu 3,1 milljón. Á heimsvísu er 1 af hverjum 110 einstaklingum flóttamaður.

40% umsókna frá þremur ríkjum

Samkvæmt skýrslu OECD sem kom út í dag fjölgaði umsóknum um hæli í Bandaríkjunum um 26% í fyrra og voru þær 330 þúsund talsins. 

Umsóknum um hæli í Þýskalandi, sem hefur verið á toppi listans frá árinu 2013 - en hér er átt við umsóknir um hæli í efnameiri löndum - fækkaði um 73% á milli ára og voru þær 198 þúsund talsins. 

Alls sóttu 127 þúsund um hæli á Ítalíu, 124 þúsund í Tyrklandi og 91 þúsund umsóknir bárust til franskra yfirvalda í fyrra.

Af þeim sem sóttu um hæli í Bandaríkjunum eru 40% frá þremur ríkjum: El Salvador, Venesúela og Gvatemala. 

Grandi segir að hann hafi skrifað bæði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og eins sérfræðingum UNHCR og óskað eftir því að reynt verði að finna nýjar og betri lausnir á því hvernig tekið er á komu flóttafólks. Þetta kom fram í máli Grandi í Líbýu í gær en fjölmargir þeirra sem koma yfir Miðjarðarhafið til Evrópu koma sjóleiðina þaðan. Á hverju ári drukkna fleiri hundruð flóttamenn á þessari leið. 

Hann er ósáttur við framgöngu ítalskra stjórnvalda í málefnum flóttafólks að undanförnu en ekki megi gleyma því að þangað komi flestir þeirra sem flýja sjóleiðina yfir Miðjarðarhafi. Mikilvægt sé að reyna ná meira jafnvægi í móttöku flóttafólks í Evrópu og dreifa ábyrgðinni.

Yfir ein milljón flúði yfir Miðjarðarhafið árið 2015 en í fyrra voru flóttamennirnir 172 þúsund talsins. Það sem af er ári hafa 37 þúsund komið þessa leið til Evrópu, samkvæmt tölum frá ESB og Sameinuðu þjóðunum.

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, vakti heimsathygli og aðdáun ýmissa þegar hún heimilaði einni milljón hælisleitenda að koma til landsins árið 2015. Þetta hefur hins vegar haft áhrif á stöðu hennar og flokks hennar í þýskum stjórnmálum þar sem Kristilegir demókratar misstu mikið fylgi í þingkosningum síðasta haust á meðan þjóðernisflokkurinn AfD jók fylgi sitt verulega. 

Deil­ur eru komn­ar upp á milli Kristi­legra demó­krata í Þýskalandi, flokks Ang­elu Merkel, og syst­ur­flokki hans CSU í Bæj­aralandi um mál­efni hæl­is­leit­enda. Deil­urn­ar gætu þýtt enda­lok rík­is­stjórn­ar flokk­anna með jafnaðarmönn­um. Krefst systurflokkurinn þess að harðari stefna verði tekin upp á landamærum Þýskalands og komu flóttafólks til landsins. 

Skoðanakönnun sem var birt í síðustu viku sýnir að tæplega 90% Þjóðverja vilja herða reglur um móttöku flóttafólks.

Kanslari Austurríkis, Sebastian Kurz, segir nauðsynlegt að Evrópa komi sér saman um viðbrögð við komu flóttafólks til álfunnar en hann og aðrir ráðherrar í ríkisstjórn Austurríkis funduðu með stjórnendum CSU í Bæjaralandi í morgun.

„Við getum ekki beðið þangað til stórslys, líkt og það sem átti sér stað árið 2015, verði,“ sagði Kurz. Á þeim tíma sóttu um 150 þúsund manns um hæli í Austurríki en alls búa 8,7 milljónir í landinu. Hann tekur fram að hann vilji ekki blandast inn í innanríkismál í Þýskalandi en segist fagna því að umræða um innflytjendur sé enn einu sinni komin á borð leiðtoga ESB. 

Fékk að koma til hafnar á Sikiley

Frá því ný ríkisstjórn tók við völdum á Ítalíu hefur það verið eitt af helstu markmiðum hennar að herða reglur varðandi komu flóttafólks til landsins. Til að mynda var björgunarskipi neitað að koma til hafnar á Ítalíu nýverið og fór svo að Spánverjar tóku við flóttafólkinu. Frá áramótum hefur komum flóttafólks til Ítalíu fækkað um 78% en alls hafa 15.600 komið þangað í ár.

Seint í gærkvöldi fékk hins vegar skip ítölsku strandgæslunnar að koma til hafnar á Sikiley með rúmlega 500 flóttamenn um borð. Bandarískt skip bjargaði fólkinu skammt fyrir utan Líbýu í síðustu viku.

Samkvæmt upplýsingum frá UNHCR í morgun voru 522 um borð í skipinu en 42 þeirra hafði verið bjargað frá drukknum og þurftu lífsnauðsynlega á læknishjálp að halda. Tugir glíma við ofþornun og var komið strax á sjúkrahús við komuna til lands. Áhöfn bandaríska skipsins sá lík 12 flóttamanna fljótandi á sjónum en tókst ekki að koma þeim um borð.

Skjóta sendiboðann

Blaðamenn án landamæra (Reporters sans frontiérs) benda á að sama tíma og fjölmiðlafólk reyni að fjalla um málefni flóttafólks þá mæti þeim víða andúð af hálfu stjórnvalda. Hótanir, þvinganir, handtökur, saksóknir, synjanir um leyfi, neitanir um viðtöl, upptaka búnaðar og brottvísanir úr landi. Blaðamaður La Repubblica, Alessandro Puglia, átti ekki von á að viðbrögð við skrifum hans yrðu þau sem raunin varð.

Umfjöllun hans um móttöku flóttafólks í Catania á Sikiley byggði meðal annars á viðtölum við flóttafólk sem lýsti því hvernig komið væri fram við það eins og skepnur. Puglia taldi að skrif hans myndu gefa tilefni til rannsóknar á móttökumiðstöðinni en þess í stað var hann sjálfur saksóttur. Blaðamaðurinn sem kom upp um hvernig mannréttindi voru brotin fólki hefur verið saksóttur fyrir ærumeiðingar og hann hefur orðið fyrir heiftúðugum árásum á samfélagsmiðlum. Réttarhöldin yfir honum hefjast í október. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert