Tæplega þúsund bjargað úr háska

AFP

Líbýska strandgæslan hefur bjargað tæplega eitt þúsund flóttamönnum úti fyrir strönd landsins undanfarinn sólarhring.

Að sögn talsmanns strandgæslunnar, Ayoub Kacem, er um þrjár björgunaraðgerðir að ræða og var alls 948 flóttamönnum bjargað af gúmmíbátum fyrir utan strönd Garabulli austur af höfuðborginni, Tripoli. 

Í fyrsta hópnum voru 97 flóttamenn, 361 í öðrum, þar af 44 börn og í gærkvöldi var þriðja og síðasta hópnum bjargað, alls 490 manns. Frá því á miðvikudag hefur strandgæslan komið um tvö þúsund flóttamönnum til bjargar á Miðjarðarhafi en fólkið er að reyna að komast til Evrópu.  

AFP

Innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini, er væntanlegur til Líbýu í dag þar sem hann mun ræða flóttamannastrauminn þaðan til Ítalíu við ráðamenn. Hann er fyrsti ráðherrann í nýrri ríkisstjórn landsins sem fer til Líbýu frá því stjórnin tók við völdum í síðasta mánuði. Líbýa var áður nýlenda Ítalíu. 

Í gær fyrirskipaði Salvini erlendum mannúðarsamtökum að hætta björgunaraðgerðum þrátt fyrir að vitað væri að tæplega eitt þúsund manns væru í sjávarháska á Miðjarðarhafi. 

„Látum líbýsk yfirvöld annast björgun, endurheimt og snúa flóttafólkinu heim til sinna landa. Líkt og þau hafa gert í einhvern tíma án þess að gráðugar sjálfstætt starfandi hjálparstofnanir (NGO) trufli þau eða valdi þeim vandræðum,“ sagði ráðherrann í gær. Síðar um daginn þakkaði hann líbýskum yfirvöldum fyrir að hafa bjargað flóttafólki úr sjávarháska.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert