Lögreglumaður skaut mann til bana

AFP

Sænska lögreglan skaut karlmann í Norrköping til bana í nótt. Maðurinn var á þrítugsaldri.

Í frétt sænska ríkisútvarpsins segir að maðurinn hafi þurft á læknisaðstoð að halda í nótt og hafi læknir og tveir lögreglumenn komið að heimili hans. Þá hafi maðurinn gert árás og lögreglumaður gripið til skotvopns í nauðvörn, að því er haft er eftir varðstjóra lögreglunnar.

Rannsókn er hafin á atvikinu. Bæði er árás mannsins til rannsóknar sem og viðbrögð lögreglunnar á vettvangi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert