Aðstoðarmaður Macron kærður

Alexandre Benalla (t.v.) og Emmanuel Macron (t.h.). Benalla hefur nú …
Alexandre Benalla (t.v.) og Emmanuel Macron (t.h.). Benalla hefur nú verið ákærður fyrir ofbeldi gegn mótmælendum. AFP

Fyrrverandi starfsmaður Emmanuels Macron Frakklandsforseta hefur verið kærður fyrir að ráðast á mótmælendur í París 1. maí. Starfsmaðurinn, Alexandre Benalla, var einn helsti lífvörður forsetans, en hann var rekinn úr stöðu sinni hjá forsetaembættinu á föstudag.

Samkvæmt BBC hefur Benalla verið kærður í alls fimm liðum, m.a. fyrir ofbeldið sem hann beitti mótmælendur og fyrir að bera lögreglumerki án heimildar, en hann var með lögregluhjálm á höfðinu er hann réðst að mótmælendum.

Annar maður, sem starfar fyrir flokk Macrons, er einnig sagður til rannsóknar vegna gruns um að hann hafi einnig beitt mótmælendur ofbeldi. Hann heitir Vincent Crase.

Sjá má myndbandið sem er grundvöllur kærunnar hér að neðan. Því var upphaflega deilt á samfélagsmiðlum í maí, en það náði svo auknu flugi eftir að dagblaðið Le Monde greindi frá því að Benalla væri sá sem réðst gegn mótmælendum.



Málið hefur vakið töluverða reiði í Frakklandi, en í myndskeiðinu sést hvernig almennir lögregluþjónar standa aðgerðalausir á meðan mótmælendur verða fyrir ofbeldi.

Þrír lögregluþjónar hafa einmitt verið kærðir, fyrir að reyna að leka upptökum úr öryggismyndavélum, í þeim tilgangi að reyna að sýna fram á sakleysi Benalla.

Ásakanir hafa komið fram um að forsetaembættið hafi vitað af atferli Benalla um nokkurt skeið, án þess að grípa til aðgerða. Jafnvel er því haldið fram að embættið hafi reynt að hylma yfir atburðinn.

Frétt BBC um málið


Leiðrétting: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar stóð að Benalla hefði verið ákærður. Hið rétta er að hann hefur verið kærður og mál hans er nú rannsakað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert