Biðja um upptöku í máli Khashoggi

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Bandaríkjamenn hafa beðið Tyrki um að fá upptöku sem er sögð hafa að geyma sannanir fyrir því að blaðamaðurinn Jamal Khashoggi hafi verið drepinn í ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í borginni Istanbúl.

„Við höfum beðið um hana, ef hún er á annað borð til,“ sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti við blaðamenn í Hvíta húsinu.

Khasoggi hefur ekki sést síðan hann fór inn í bygginguna 2. október. Stjórnvöld í Sádi-Arabíu neita því að hafa drepið hann.

Sádi-Arabía er einn nánasti bandamaður bandarískra stjórnvalda og því hefur hvarf Khashoggi sett Trump og félaga í erfiða stöðu. Forsetinn á von á því að Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, skili skýrslu um málið en hann heimsótti bæði Tyrkland og Sádi-Arabíu.

Trump á von á því að sannleikurinn í málinu komi í ljós í lok vikunnar. Hann hafnaði því jafnframt að hann væri að verja Sádi-Arabíu í málinu. „Alls ekki, ég vil bara komast að því sem gerðist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert