„Ítölsk stjórnmál fyrir imba“

Ismaele La Vardera, 22 ára gamall blaðamaður á Sikiley, kom ýmsum á óvart snemma árs í fyrra þegar hann tilkynnti um framboð sitt til embættis borgarstjóra í Palermo, höfuðstað Sikileyjar.

Enn meira kom á óvart þegar hann sagðist fara fram fyrir Norðursambandið en leiðtogi flokksins, Matteo Salvini innanríkisráðherra, hefur ítrekað gert lítið úr íbúum suðurhluta landsins.

La Verdera fékk aðeins 2,7% atkvæða í kosningunum 12. júní en hann greindi frá því eftir kosningarnar að hann tók falda myndavél með í kosningabaráttunni og tók upp upplifun sína í baráttunni. Afraksturinn er heimildarmyndin „Ítölsk stjórnmál fyrir imba“ og er áætlað að hún verði frumsýnd í lok nóvember. Hún þykir varpa nýju ljósi á starfsemi popúlistaflokka og íhlutun mafíunnar inn í stjórnmál á Ítalíu, segir í frétt Guardian.

Hann lýsir sér sem Davíð sem berst við Golíat, gegn ráðandi öflum í stjórnmálum. Norðursambandið tók honum fagnandi sem frambjóðanda enda berðist hann gegn stofnanavæðingu stjórnmálanna líkt og flokkurinn gerir. Salvani gekk frá framboði La Vardera á fundi þeirra tveggja sem stóð í tvær klukkustundir en það sem Salvani vissi ekki var að frambjóðandinn tók samtalið upp. 

Salvani tjáði honum að hann yrði kynntur til leiks sem ný rödd í feni gömlu stjórnmálanna. La Vardera var einnig boðið að fara fram fyrir þjóðernisflokkinn Bræður Ítalíu (Fratelli d’Italia) af formanni flokksins, Giorgia Meloni, en hann þáði ekki boð Meloni. 

Eitt atriðið í myndinni þykir afar áhrifamikið en það er tekið í kjallara fjölbýlishúss í Kalsa-hverfinu í Palermo en þar rís ríki mafíunnar hæst í borginni. La Vardera hafði verið boðið í íbúðina af fyrrverandi borgarfulltrúa í Palermo til að ræða við ættingja Gino „U Mitra” Abbate, sem er leiðtogi mafíunnar en er í fangelsi. 

Hvert atkvæði kostar 30 evrur

Ættinginn bauð La Vardera samning um að honum yrðu tryggð 300 atkvæði í hverfinu en hvert atkvæði myndi kosta hann 30 evrur. „Hér þarf fólk á mat að halda. Hér ákveðum við hvað fólk kýs. Að öðrum kosti kýs það ekki,“ segir ættinginn í heimildarmyndinni. 

La Vardera viðurkennir að hann hafi vart trúað eigin eyrum. „Ég hugsaði er þetta í alvörunni að gerast?“ La Vardera segir að hann hafi aldrei greint flokksforystunni frá þess enda séu samningar við mafíuna ekki ræddir.

Í myndinni er einnig sýnt þegar La Vardera er boðinn á heimili fyrrverandi héraðsstjóra Sikileyjar, Salvatore Cuffaro, sem sat tæp fimm ár í fangelsi fyrir að aðstoða mafíuna, Cosa Nostra. Þetta er þegar komið er að seinni umferð kosninganna og Cuffaro reynir að fá hann til þess að styðja frambjóðanda Forza Italia, flokks Silvios Berlusconis, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu.

Þess í stað býðst Cuffaro til þess að útvega La Vardera stöðu í héraðsstjórn Sikileyjar í næstu kosningum á Ítalíu. „Ef þú spilar með okkur þá mun ég gera það sem þarf til þess að þú verður kjörinn,“ segir Cuffaro.

Þegar La Vardera greindi frá því opinberlega eftir kosningarnar að hafa tekið upp fundi á laun fór af stað mikil umræða um siðferði þess og hvort framboðið hafi verið málamyndagjörningur. Málið fór fyrir dóm og var það niðurstaða dómarans að framboðið hafi verið raunverulegt. 

Eftir kosningarnar ræddi blaðamaðurinn við þá sem hann tók upp á laun, svo sem Cuffaro og Meloni. Sá fyrrnefndi hló og sagði að í dómskerfinu væru þegar upptökur með honum í tonnatali. Þessar upptökur muni ekki breyta neinu til eða frá.

Meloni, sem hafði áður hrósað La Vardera opinberlega, segir núna að hann hafi valdið henni vonbrigðum. En það hvarfli ekki að henni að höfða mál gegn honum.

Frétt Guardian í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert