Ricardel færð til í starfi

Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna, vildi láta reka Ricardel og varð …
Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna, vildi láta reka Ricardel og varð henni að ósk sinni í gær. AFP

Mira Ricar­del, sem var aðstoðar-þjóðarör­ygg­is­ráðgjafi Banda­ríkj­anna, hefur verið flutt til í starfi en greint var frá því fyrr í vikunni að Ricardel og forsetafrú Bandaríkjanna, Melania Trump, hafi tekist á og sú síðarnefnda krafist þess að Ricardel yrði rekin úr starfi. 

Talskona forsetaembættisins, Sarah Sanders, greindi frá því í tilkynningu í gærkvöldi að Ricardel væri að taka við nýju starfi á vegum stjórnvalda en ekki er gefið upp hvert starfið er. Melania Trump sagði fyrr í vikunni að Ricardel ætti ekki skilið þann heiður að starfa fyrir forsetaembætti Bandaríkjanna. Deilur þeirra tveggja ná aftur til Afríkuferðar í október.

Bandarískir fjölmiðlar greindu frá því fyrr í vikunni að deilan hafi snúist um sætaskipan í flugferð Trump til Afríku. Í viðtali við ABC í Afríkuferðinni sagði Melania Trump að það væri fólk sem starfaði í Hvíta húsinu sem hún treysti ekki. Hún sagðist hafa veitt eiginmanni sínum ráðleggingar á þessu sviði en það væri í hans höndum að taka ákvarðanir varðandi starfsfólk. 

Wall Street Journal greindi frá því að starfsfólk Trumps teldi að Ricardel stæði á bak við ýmsar neikvæðar fréttir um Melaniu og starfsfólk hennar.

Talið er að Donald Trump ætli sér að hreinsa til í Vesturálmu Hvíta hússins og eru þar nefndir til sögunnar John Kelly, starfsmannastjóri Hvíta hússins, eða ráðuneytisstjóri þjóðaröryggisdeildar, Kirstjen Nielsen.

Ricardel var ráðin til starfa af þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjanna, John Bolton, og hefur starfað áratugum saman hjá bandarískum stjórnvöldum. Þar á meðal í varnarmáladeildinni undir forsæti George W. Bush sem og hjá Bob Dole þegar hann var leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert