Afmyndaði konu með sýru

Gessica Notaro í þættinum Dancing with the Stars.
Gessica Notaro í þættinum Dancing with the Stars. Mynd/Skjáskot úr myndbandi Rai á Facebook

Karlmaður sem afmyndaði fyrrverandi þátttakanda í keppninni Ungfrú Ítalía með því að skvetta sýru í andlit hennar hefur verið dæmdur í 15 ára fangelsi af áfrýjunardómstóli í Bologna.

Edson Tavares, fyrrverandi kærasti Gessicu Notaro, fékk dóm vegna málsins í fyrra en áfrýjunardómstóllinn ákvað að ósk verjenda hans að sameina árásarmálið og annað mál þar sem hann var dæmdur fyrir að hafa setið um hana og ekki látið í friði. Samtals hafði hann verið dæmdur í 18 ára fangelsi fyrir þau brot í fyrra, að því er BBC greindi frá. 

Frá því árásin átti sér stað í janúar í fyrra hefur Notaro, sem er 29 ára, talað opinberlega um ofbeldi gegn konum. Hún hefur einnig birst í sjónvarpsþáttum, meðal annars í dansþætti.

Nokkrum mánuðum eftir að Notaro, sem var upprennandi fyrirsæta og söngkona, hætti með Tavares lagði hún fram kæru til lögreglunnar og sagði að hann sæti um hana. Nálgunarbann var í framhaldinu sett á hann.

Fyrsta janúar í fyrra var sýru skvett á hana og hlaut hún slæm brunasár. Hún varð að fara í margar lýtaaðgerðir á andliti og notar núna lepp yfir öðru auganu.

Notaro hefur öðlast frægð á Ítalíu og er orðin táknmynd í baráttunni gegn ofbeldi í garð kvenna. Fyrr á þessu ári tók hún þátt í þættinum Dancing with the Stars og um síðustu helgi kom hún fram í spjallþætti.

„Ég er ekki eins sterk og ég lít út fyrir að vera,“ sagði hún í þættinum. „Ég er mjög sjúkdómahrædd en þegar eitthvað svona alvarlegt kemur fyrir þig verðurðu að velja hvort þú viljir lifa eða deyja og ég ákvað að lifa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert