Óttast að landamæraleiðinni verði lokað

Hundruð íbúa mexíkósku landamæraborgarinnar Tijuana hafa flykkst út á göturnar um helgina til að mótmæla komu þúsunda hælisleitenda frá Mið-Ameríku sem eru nú að reyna að komast yfir til Bandaríkjanna. Segir BBC íbúa hafa hvatt hælisleitendur til að fara frá Tijuana, en fólkið tilheyrir enn stærri hópi hælisleitenda sem hafa ferðast í gegnum Mexíkó undanfarnar vikur á leið sinni til Bandaríkjanna, þar sem þeir ætla að óska eftir hæli.

Yfirvöld í Bandaríkjunum og Mexíkó hafa aukið öryggisgæslu á landamærunum vegna komu hópsins, m.a. hefur bandaríski herinn unnið að því að setja upp gaddavírsgirðingar og hindranir.

Hundruð íbúa landamæraborgarinnar Tijuana mótmæltu um helgina komu hóps hælisleitenda, …
Hundruð íbúa landamæraborgarinnar Tijuana mótmæltu um helgina komu hóps hælisleitenda, sem vonast til að komast í gegnum borgina til Bandaríkjanna. AFP

Geta ekki tekið á móti flóðbylgjunni

Juan Manuel Gastelum, borgarstjóri Tijuana, sagði á föstudag að hann gerði ráð fyrir að um 10.000 hælisleitendur muni koma til borgarinnar á næstu vikum og varaði við að borgaryfirvöld gætu ekki tekið á móti slíkri „flóðbylgju“.

Donald Trump Bandaríkjaforseti greip orð Gastelum á lofti á sunnudag, er hann tjáði sig enn á ný um hælisleitendahópinn á Twitter.

„Borgarstjóri Tijuana í Mexíkó var að fullyrða að borgin sé illa undir það búin að taka á móti svona mörgum hælisleitendum og að það geti tekið sex mánuði að vinna úr því,“ sagði Trump á Twitter.

„Bandaríkin eru líka illa undirbúin fyrir þessa árás og ég mun ekki líða hana. Þeir [hælisleitendurnir] eru að fremja glæpi og valda vandræðum í Mexíkó. Farið heim!“

Andúð í garð hælisleitendanna var einnig sýnileg á götum Tiujana. „Þetta er innrásarlið! Þeir eru vopnaðir! Farið úr landinu,“ segir Reuters-fréttastofan mótmælendurna hafa hrópað.

Óeirðalögregla stendur vakt í nágrenni athvarfs fyrir hælisleitendur í Tijuana …
Óeirðalögregla stendur vakt í nágrenni athvarfs fyrir hælisleitendur í Tijuana á meðan íbúar í borginni mótmæla komu hælisleitendanna. AFP

Hælisleitendum að kenna verði landamærunum lokað

AFP-fréttastofan hefur eftir Esther Monroy, einum mótmælendanna, að hún óttist að aukinn fjöldi hælisleitenda í borginni muni leiða til þess að Bandaríkin loki landamæraleiðinni þar í gegn. „Flest okkar reiða sig á viðskipti frá fólki sem er að koma og fara yfir landamærin,“ sagði hún. „Ef þeir loka þeim, þá verður það [hælisleitendunum] að kenna.“

„Geti stjórnvöld ekki náð stjórn á ástandinu þá munu skipulögð glæpasamtök og eiturlyfjahringir gera það,“ bætti America Villa við. „Okkur er svo sem sama hver gerir það, en þeir verða að taka ábyrgð á þessu fólki.“

Ekki voru þó allir að mótmæla komu hælisleitendanna, því á staðnum var einnig að sögn BBC minni hópur sem var þar til að styðja fólkið sem segist vera að flýja ofsóknir, fátækt og ofbeldi í heimalöndum sínum Hondúras, Gvatemala og El Salvador.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert