Lífstíðarfangelsi fyrir morð á dóttur sinni

Sherin Matthews.
Sherin Matthews.

Wesley Mat­hews, bandarískur faðir sem var ákærður fyrir að myrða þriggja ára ættleidda dóttur sína, hefur verið dæmdur til lífstíðarfangelsis eftir að hafa játað sig sekan um annan ákærulið. 

Samkvæmt BBC féll dómurinn eftir að Mathews játaði sig sekan um „skaða á barni vegna vanrækslu“ og var úrskurður kviðdóms einróma.  

Tilkynnt var um hvarf Sherin Mathews frá heimili sínu í Texas-ríki í október 2017. Faðir hennar sagði upprunalega að dóttir sín hafi horfið eftir að hann sendi hana út um miðja nótt í refsingarskyni fyrir að hafa ekki drukkið mjólk sína. 

Eftir að lík stúlkunnar fannst tveimur vikum síðar í afrennslisopi á heimili Mathews, fullyrti hann skyndilega að hún hafði í raun kafnað fyrir slysni. 

Samkvæmt lögreglu stóðust frásagnir Mathews enga skoðun og breytti hann lýsingu sinni á atburðinum aftur og aftur á meðan á rannsókn málsins stóð. 

Í framburði sínum fyrir kviðdómi á þriðjudag fullyrti Mathews að Sherin hafi fyrir slysni kafnað á mjólk og látist. Saksóknarinn Sherre Thomas, féllst ekki á frásögn Mathews og sagði læknaskýrslur sýna að það væri „ómögulegt fyrir þriggja ára barn að standa upp og kafna til bana.“

Þá sagði Thomas engan vafa leika á því að Mathews hafi myrt dóttur sína í október 2017. Sherin hafði verið ættleidd frá Indlandi árið áður. 

Eiginkona Mathews, Sini Mathews, var einnig ákærð fyrir afskiptaleysi við dóttur sína, en var málið látið niður falla fyrr á þessu ári sökum skorts á sönnunargögnum. 

Hin dóttir hjónanna var tekin úr forsjá foreldra sinna stuttu eftir að Sherin hvarf. Henni var upphaflega komið fyrir hjá fósturfjölskyldu, en dvelur nú hjá ættingjum sínum. 

Í nóvember 2017 staðfesti barnalæknir við gæsluvarðhaldsúrskurð yfir hjónunum, að hún hafði áður sett sig í samband við barnaverndaryfirvöld í mars það sama ár vegna áhyggja sinna yfir beinbrotum sem hún fann á Sherin. 

Málið olli því að indversk stjórnvöld sviptu starfsleyfi ættleiðingaskrifstofuna sem Mathews hjónin fengu Sherin í gegnum, og sökuðu skrifstofuna jafnframt um vanrækslu í mati sínu á hjónunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert