18 stiga frost í Kansas

Mjög kalt er í veðri víða í Bandaríkjunum.
Mjög kalt er í veðri víða í Bandaríkjunum. AFP

Ískaldur norðurskautsvindur er að gera ýmsum lífið leitt í Bandaríkjunum en þar hafa fallið kuldamet á nokkrum stöðum.

Vindinum, sem á upptök sín í Síberíu, hefur fylgt mikill snjór og ísing víða. Kuldamet hafa verið slegin nánast daglega í ríkjum eins og Kansas og Illinois. Samkvæmt veðurspám má búast við að kuldametin falli eitt af öðru um helgina.

Fjórir hafa látist í umferðarslysum sem rekja má til veðurs og yfir eitt þúsund flugferðum hefur verið aflýst vegna veðurs. Skólahald hefur verið fellt niður en spár gera ráð fyrir kólnandi veðri víða á stöðum þar sem yfirleitt er mun hlýrra í veðri á þessum árstíma. 

Í borginni Garden í Kansas mældist 18 stiga frost í gær og er það nýtt met en fyrra metið var frá því í fyrra, 14 stiga frost. Í Chicago mældist 14 stiga frost í gær og aldrei hefur snjóað jafn mikið í borginni á einum degi og á mánudaginn. Jafnvel hefur snjóað í bænum Brownsville í Texas sem er við landamæri Mexíkó. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert