Opinberar vitnaleiðslur hefjast í dag

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Vitna­leiðslum vegna meintra embættisbrota Donald Trump Bandaríkjaforseta í samskiptum við forseta Úkraínu verður sjónvarpað en útsending hefst klukkan 15:00. Demókratar ætla sér að sanna að Trump hafi framið embættisbrot með því að hafa óeðlileg áhrif á er­lend stjórn­völd í því skyni að skaða póli­tísk­an and­stæðing sinn.

Trump er harðorður vegna rannsóknarinnar, sem hann segir að sé „spillt“ og „ólögleg“. Forsetinn heldur því enn fremur fram að hann hafi ekki gert neitt rangt.

Upphaf rannsóknarinnar má rekja til þess þegar lögð var fram kvörtun vegna símtals Trump við Vlody­myr Zelen­sky, for­seta Úkraínu. Þar hafi Trump mögulega misnotað vald sitt þegar hann þrýsti á Zelensky um að rannsaka Hunter Biden, son Joe Biden sem er mögulegur andstæðingur Trumps í forsetakosningunum næsta haust.

Trump talar um „sýndarréttarhöld“

Forsetinn birti nokkrar færslur á Twitter í gærkvöldi þar sem hann sagði meðal annars að um „sýndarréttarhöld“ væri að ræða. Hann hélt áfram á sömu braut í morgun.

Trump gæti orðið þriðji forsetinn í sögu Bandaríkjanna sem verður kærður fyrir embættisbrot. Hinir eru Andrew Johnson árið 1868 og Bill Clinton 1998.

Hvorki Johnson né Clinton voru fundnir sekir. Richard Nixon sagði hins vegar af sér árið 1974 þegar hann átti yfir höfði sér rannsókn vegna embættisbrota.

Búist við spennuþrungnum vitnaleiðslum

Adam Schiff, aðal­full­trúi demó­krata í þing­nefnd um mál­efni leyniþjón­ust­unn­ar, sagði að fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefði komið auga á mörg möguleg brot.

Búist er við því að vitnaleiðslurnar verði spennuþrungnar en nokkrir embættismenn munu svara fyrir meint brot forsetans.

Forsetakosningar fara fram í Bandaríkjunum eftir eitt ár og fréttamiðlar vestanhafs segja að vitnaleiðslurnar geti skaðað báða flokka; demókrata og repúblikana, og ekki sé ljóst hvor flokkurinn muni græða á því sem er fram undan.

Skoðanakannanir benda til þess að meirihluti Bandaríkjamanna sé hlynntur því að málið verði rannsakað. Stuðningsmenn Trump hafna hins vegar þeim ásökunum sem bornar eru á forsetann.

Repúblikanar á þingi saka Schiff um ósanngjarnt ferli og segja það ekki í samræmi við stjórnarskrá Bandaríkjanna. Schiff segist ekki líða tilraunir repúblikana sem reyna að gera málið að pólitísku hringleikahúsi.

Tveir embættismenn bandarísku utanríkisþjónustunnar verða þeir fyrstu sem bera vitni opinberlega í dag. William Taylor, starfandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, og George kent, aðstoðarutanríkisráðherra í málefnum Evrópuríkja, bera vitni á opnum fundi þriggja nefnda.

Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu hér að neðan:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert