Herinn látinn fjarlægja hindranir mótmælenda

Mótmælandi kastar bensínsprengju í átökum gegn óeirðalögreglu fyrir utan einn …
Mótmælandi kastar bensínsprengju í átökum gegn óeirðalögreglu fyrir utan einn af háskólum Hong Kong. AFP

Kínverskar hersveitir í Hong Kong hafa verið kallaðar til að ryðja úr vegi vegahindrunum sem mótmælendur hafa komið fyrir á götum borgarinnar. Guardian segir þessa ákvörðun umdeilda og er hún talin geta aukið á spennuna sem þegar ríkir í Hong Kong.

Tugir hermanna kínverska alþýðuhersins, íklæddir stuttbuxum og stuttermabolum voru sendir hlaupandi úr herstöð sinni á Kowloon eyju að Hong Kong Baptist University háskólanum, en þar höfðu mótmælendur komið upp götuvígi til að hindra óeirðalögreglu í að koma inn á háskólasvæðið. Hermennirnir fjarlægðu hins vegar götuvígin með aðstoð hóps íbúa.

Möguleikinn á hernaðarlegri íhlutun hefur legið í loftinu frá því mótmælin hófust fyrst fyrir fimm mánuðum síðan. Minningin um aðgerðir hersins gegn mótmælum námsmanna á Torgi hins himneska friðar  í Peking árið 1989 hefur þá einnig hvílt eins og skuggi yfir mótmælunum.

Kínverski alþýðuherinn er með um 12.000 manna herlið í Hong Kong, sem hægt er að kalla til vegna náttúruhamfara, eða til að viðhalda almannafriði að beiðni heimastjórnarinnar.

Hermenn í kínverska alþýðuhernum fjarlægja hér vegahindrunumsem mótmælendur komu fyrir …
Hermenn í kínverska alþýðuhernum fjarlægja hér vegahindrunumsem mótmælendur komu fyrir til að stöðva för óeirðalögreglu. AFP

Á þeim 22 árum sem eru liðin frá því að þessi fyrrverandi breska nýlenda var afhent kínverskum yfirvöldum hefur herinn einungis einu sinni sést á götum Hong Kong og var það til að aðstoða við hreinsunarstarf eftir að fellibylur fór Hong Kong yfir í fyrra.

Þó að sérfræðingar segi ólíklegt að kínversk stjórnvöld grípi til aðgerða á borð við þær sem gert var 1989 hefur undanfarna viku verið stigmögnun í ofbeldisaðgerðum mótmælenda og lögreglu. Létu tveir lífið í mótmælum vikunnar og tugir slösuðust.

Undanfarna fimm daga hafa mótmælendur líka lamað samgöngukerfið og valdið skemmdum á lestarstöðvum, auk þess að bregðast við innrás lögreglu inn í nokkra háskóla með því að víggirða háskólasvæðin, loka inngöngum þeirra og sanka að sér bensínsprengjum, bogum, örvum og teygjubyssum.

Nokkur ró virtist þó vera komin á að nýju síðdegis í dag og hefur umferð verið að færast í eðlilegt horf eftir að nokkrar götutálmanir voru fjarlægðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert