Norsku ISIS-systurnar á leið til Sómalíu?

Konur og börn í Al Hol-flóttamannabúðunum í Sýrlandi. Mynd úr …
Konur og börn í Al Hol-flóttamannabúðunum í Sýrlandi. Mynd úr safni. AFP

Fjölskylda norskra systra, sem héldu til Sýrlands í október 2013 þegar þær voru enn táningar, vinnur nú hörðum höndum að því að koma þeim úr hinum illræmdu Al Hol-flóttamannabúðum sem þær hafa verið vistaðar í yfir hálft ár.

Systurnar hafa í umfjöllun norskra fjölmiðla verið kallaðar ISIS-systurnar frá Bærum og fullyrðir norska ríkisútvarpið NRK á vef sínum að fjölskyldan reyni nú að fá systurnar sendar til Sómalíu,  þar sem þær fæddust og eiga fjölskyldu.

Saga systranna vakti mikla athygli í Noregi, ekki hvað síst eftir að rithöfundurinn Åsne Seierstad sendi frá sér verðlaunabókina „To søstre“ eða Tvær systur árið 2016.

Lengi vel var ekki vitað hvort systurnar hefðu lifað af dvölina með vígasamtökunum Ríki íslams, þar til norska dagblaðið Aftenposten greindi frá því í júní á þessu ári að systurnar væru í hópi þess mikla fjölda sem dvelur í Al Hol-flóttamannabúðunum.

Börnin norskir ríkisborgarar

Voru systurnar í síðasta hópinum sem komst lifandi frá Baghouz, sem var síðasti bærinn sem Ríki íslams hafði á valdi sínu í landinu.

Systurnar eru í dag eru 22 og 25 ára og eiga nú samtals þrjú börn, sem samkvæmt norskum lögum teljast norskir ríkisborgarar.

Þegar Aftenposten ræddi við yngri systurina í sumar hafnaði hún því að þær hefðu farið til Sýrlands til að ganga til liðs við Ríki íslams. Sagði hún þær ekki hafa vitað hvað Ríki íslams var.

NRK segir fjölskyldu systranna ekki vilja tjá sig um mál þeirra, en þær eru sagðar hafa fengið sent fé frá Noregi nú í haust.

Al Hol-flóttamannabúðirnar eru undir umsjón SDF, hernaðararms Kúrda, sem hafa ítrekað hvatt ríki heims til að fá ríkisborgara sinna landa senda úr búðunum. Án slíkrar beiðni er þeim sem þar dvelja ekki hleypt í burtu. Í tilfelli systranna frá Bærum þyrftu sómölsk yfirvöld því að fara fram á að fá þær afhentar.

NRK hefur eftir talsmanni sómalskra stjórnvalda að engin beiðni um slíkt hafi borist og það sé spurning hvort það sé ekki frekar norskra yfirvalda að taka ábyrgð á þeim.

Aftenposten sagði systurnar hafa óskað eftir því í sumar að fá að komast aftur til Noregs með börn sín. NRK segir hins vegar óvíst hvort þær hafi óskað aðstoðar utanríkisráðuneytisins.

Norska utanríkisráðuneytið neitar að tjá sig um hvort systurnar hafi óskað aðstoðar norskra stjórnvalda og vísar til trúnaðarskyldu. Embættismaður segir ráðuneytið hins vegar alla jafna hvetja þá sem þurfi á aðstoð að halda að óska eftir henni.

Norska öryggislögreglan hefur ákært systurnar fyrir brot á hryðjuverkalögum og eru þær eftirlýstar á alþjóðavettvangi, norsk yfirvöld hafa þó ekki farið fram á að fá þær sendar aftur til Noregs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert